Fylgst með ferðum WOW

Nú ríkir algjör óvissa um framhaldið hjá WOW air og telja viðmælendur Túrista ekki öruggt að þotur flugfélagsins muni fljúga til Íslands í kvöld.

Mynd: London Stansted

Icelandair Group mun ekki taka yfir rekstur WOW air. Þetta kom fram í tilkynningu frá félaginu sem send var út nú undir kvöld. Það mun hafa verið mat forsvarsfólks Icelandair að rekstur og fjárhagsstaða keppinautarins sé með þeim hætti að ekki var hægt að halda áfram með málið samkvæmt því sem fram kemur á Vísi. En líkt og Túristi greindi frá í gær þá mun tap af rekstri WOW hafi numið nærri 20 milljörðum í fyrra og skýrir bókfært tap af sölu fjögurra Airbus þota stóran hluta.

Það er ljóst að á þessari stundu er mikil óvissa ríkjandi um hvort WOW air geti haldið áfram enda byggðust viðræður helgarinnar við Icelandair á þeirri forsendu að fyrrnefnda félagið væri á fallandi fæti. Viðmælendur Túrista telja líkur á að þotur WOW, sem eru núna á leið til Bandaríkjanna og Kanada, muni ekki fljúga tilbaka til Íslands seinna í kvöld. Ástæðan er sú að flugvélaeigendur muni reyna að taka þoturnar yfir til að koma í veg fyrir að Isavia geti kyrrsett þær til að fá upp í ógreidd lendinga- og farþegagjöld á Keflavíkurflugvelli.

Í flugflota WOW air í dag eru 11 þotur og samkvæmt heimasíðunni Flightradar þá eru þrjár þeirra á Keflavíkurflugvelli og sex á leið til áfangastaða í Norður-Ameríku. Sú tíunda er í leiguverkefnum í Karabíska hafinu og sú síðasta er í viðhaldi í Lubljana í Slóveníu.