Gera ráð fyrir að Boeing borgi reikninginn

Stjórnendur Norwegian hafa sótt háar skaðabætur til flugvéla- og hreyflaframleiðenda og það munu þeir líka gera vegna kyrrsetningu MAX þotanna.

Mynd: Boeing

Eftir að evrópsk flugmálayfirvöld settu tímabundið bann á notkun Boeing 737 MAX 8 þota í loftrými álfunnar í gær þá kyrrsettu flugfélög eins og Icelandair og Norwegian þotur sínar af þessari gerð. Í tilkynningu frá Icelandair sagði að til skamms tíma myndi þessi ráðstöfun hafa óveruleg áhrif á rekstur félagsins því aðeins væri um að ræða þrjár af 33 farþegavélum í flota félagsins.

Í herbúðum Norwegian er tónninn þyngri því félagið hefur undanfarið notast við 18 MAX þotur. Í tilkynningu frá Norwegian í morgun segir að starfsmenn þess hafi unnið að því í nótt að finna lausn á  vandanum og tryggja farþegum sínum flug á áfangastað. Þrátt fyrir stóran flugflota þá þarf Norwegian þó á öllum sínum þotum að halda og í frétt Reuters segir að stjórnendur Norwegian ætli að sækja bætur til Boeing vegna þess tekjutaps og aukakostnaðar sem flugfélagið verður fyrir vegna kyrrsetningarinnar. „Við gerum ráð fyrir að Boeing borgi þennan reikning,“ segir í svari Norwegian til Reuters.

Þetta verður ekki í fyrsta sinn sem Norwegian þarf að sækja skaðabætur til Boeing því það gerði flugfélagið líka vegna Boeing Dreamliner þotanna fyrir fimm árum síðan. Afhending á  þeim drógst á langinn og töluverð vandræði voru með þær vélar í upphafi. Þrjár af fyrstu Dreamliner flugvélum Norwegian voru reyndar keyptar af Icelandair því móðurfélag þess, FL-Group, gekk frá kaupum á þeim árið 2005. Þá stóð til að taka þær í notkun fimm árum síðaar en Norwegian fékk þær fyrst afhentar sumarið 2013. Seinkunin skrifaðist meðal annars á galla í rafgeymum flugvélanna sem varð til þess að þær voru  kyrrsettar í þrjá mánuði í ársbyrjun 2013.

Hefði Icelandair verið í stakk búið að taka við Dreamliner þotunum á  sínum tíma þá hefði félagið væntanlega þurft að taka slaginn við Boeing vegna vandræðanna með Dreamliner þoturnar. Nú gætu stjórnendur íslenska flugfélagsins hins vegar staðið frammi fyrir þessu verkefni og gætu þær bótakröfurnar blandast inn í viðræður um kaup á nýjum flugvélum. Forsvarsfólk Icelandair hefur nefnilega gefið út að framtíðaruppbygging flugflota félagsins sé á dagskrá  í ár og horft verði bæði til Boeing og Airbus.