Geta ólíklega beðið lengi eftir meirihlutaeiganda

Kröfu­haf­ar hlynnt­ir end­ur­reisn WOW air og ætla að freista þess að selja 51 prósent hlut í flugfélaginu. Ekki hefur heyrst nánar af þeim áformum sem Skúli Mogensen boðaði í gær.

wow skuli airbus

Kröfu­haf­ar WOW air funduðu í kvöld um áætlun um að umbreyta skuld­um í 49 prósent hluta­fjár í flugfé­lag­inu. Í frétt Mbl.is um fundinn segir að ein­hug­ur hafi verið áætl­un­ina og enginn hreyft við mót­mæl­um. Í ljósi stöðu WOW má ljóst vera að kröfuhafar hafa almennt ekki annan kost en að freista þess að taka þátt í skuldaniðurfærslunni. Fyrir einhverja þeirra gæti það þó verið ómögulegt vegna hagsmunaárekstra við aðra viðskiptavini sína.

Það mun vera ætlun kröfuhafanna að bjóða 51 prósent til sölu fyrir um 5 millj­arða króna en ekki kemur fram í frétt kvöldsins hversu langt það söluferli er komið. Til samaburðar náði WOW að selja skuldabréf fyrir hátt í 7 milljarða króna í haust. Það útboð tók 5 vikur sem var nokkru lengri ferli en lagt var upp með.

Svo langan tíma hefur kröfuhafahópurinn ekki núna því  sala á farmiðum gengur mun hægar en áður og óvissa meðal farþega og starfsfólks er mikil. Flugáætlunin hefur líka farið úr skorðum síðastliðinn sólarhring og eru vísbendingar er um að innheimtuaðgerðir flugvélaleiga og flugvalla hafi þar skipt sköpum. Þess háttar fyrirtæki eru einmitt dæmi um kröfuhafa sem eru ólíklegri til að breyta skuldum sínum í hlutafé en almennir birgjar og fjármálastofnanir.

Í tilkynningu frá WOW air í gær og í bréfi til starfsmanna þá boðaði Skúli Mogensen, forstjóri og núverandi eigandi WOW, nánari upplýsingar í dag um næstu skref fyrirtækisins. Ennþá hafa þær upplýsingar ekki verið birtar.