Hringflug Icelandair í Skandinavíu

Síðustu tvo sunnudaga hefur Icelandair sameinað flug til Óslóar og Stokkhólms vegna kyrrsetningar á MAX þotum. Ekki hefur verið tekið ákvörðun um hvernig flugfélagið bregst við ef kyrrsetning þotanna dregst á langinn.

Ein af MAX þotum Icelandair. Mynd: Boeing

Síðustu tvo sunnudaga hefur Boeing breiðþota Icelandair tekið á loft síðdegis frá Keflavíkurflugvelli og sett stefnuna á Ósló en um borð hafa líka verið farþegar á leið til Stokkhólms. Vélin hefur svo millilent á Gardermoen flugvelli og eftir að hluti farþega hefur farið frá borði og aðrir komið inn þá er ferðinni haldið áfram til Stokkhólms og þaðan flogið heim. Ferðalag farþeganna hefur því verið mun lengra en upphaflega var gert ráð fyrir.

„Við höfum gripið til þessarar ráðstöfunar í þeim tilfellum sem MAX vél hefur verið áætluð í síðdegisflugi til Ósló og/eða Stokkhólms í stað þess að þurfa að aflýsa flugi. Við höfum metið það svo að þetta valdi lágmarksröskun fyrir farþega okkar. Við höfum reynslu af þessu hringflugi enda var þessi leið flogin vikulega allt síðastliðið sumar, síðdegis á sunnudögum. Við erum náttúrulega að gera allt sem í okkar valdi stendur til að raska flugi sem minnst í kjölfar kyrrsetningar MAX vélanna og þessi uppsetning er notuð þá daga sem okkur vantar vél síðdegis á sunnudögum. Við erum hins vegar ekki búin að plana fleiri slík flug í bili.“ segir Ásdís Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, í svari til Túrista.

Þegar MAX þotur Icelandair voru kyrrsettar kom það fram í tilkynningu frá félaginu að til skamms tíma myndi það hafa óveruleg áhrif á rekstur félagsins. Aðspurð hvort viðbúið sé að Icelandair sameini flug til fleiri borga á næstunni þá segir Ásdís að verið sé að skoða hvernig brugðist verði við ef kyrrsetning MAX þotanna dregst á langinn inn í annasamari tíma. „Engin ákvörðun hefur þó verið tekin enn sem komið er um hvernig við leysum það,“ bætir Ásdís við.

Því má bæta við að Boeing framleiðandinn stefnir á að kynna uppfærðan hugbúnað í MAX þoturnar á næstu dögum. Ekki liggur þó fyrir hvenær kyrrsetningu flugvélanna verður aflétt.