Icelandair með sérstök fargjöld fyrir farþega WOW

Í bréfi sem forstjóri Icelandair sendi á starfsfólk flugfélagsins kemur fram að farþegum WOW bjóðist nú farmiða á sérkjörum. Áhöfnum WOW verður jafnframt flogið heim þeim að kostnaðarlausu.

icelandair wow

„Það voru að berast sorgarfréttir fyrir flugstarfsemi og ferðaþjónustu á Íslandi. Við vinnum nú samkvæmt viðbragsáætlun okkar um að aðstoða þá flugfarþega sem á þurfa að halda að komast heim,“ segir í bréfi sem Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, sendi á starfsmenn flugfélagsins í morgun. Þar segir hann að í ljósi stöðunnar muni reyna mikið á starfsmenn næstu daga.„Nú er tíminn til að sýna okkar bestu hliðar, auðmýkt og skilning á aðstæðum, góða þjónustulund og vinsemd í garð farþega. Viðbragðsáætlun okkar hefur nú verið virkjuð til að aðstoða flugfarþega og áhafnir að komast heim,“ segir Bogi Nils.

Í bréfinu eru kynnt sérstök afsláttarfargjöld á almennu farrými til og frá ákveðnum áfangastöðum í Evrópu og Bandaríkjunum. Verða  þau í boði næstu tvær vikurnar fyrir farþega sem áttu bókað með WOW frá 28.mars til 11. apríl. Allar upplýsingar munu koma fram á sérstakri síðu sem finna má hér.

Farþegar WOW geta jafnframt haft samband við Icelandair í gegnum síma eða samfélagsmiðla og þurfa að framvísa WOW air flugmiða við bókun. Icelandair ætlar einnig að fljúga áhöfnum WOW air heim þeim að kostnaðarlausu.

„Það er áskorun að takast á við þetta verkefni þar sem páskarnir eru framundan og því eru flestar vélar þétt bókaðar á okkar helstu flugleiðum,“ segir Bogi Nils í lok bréfsins sem sent var á starfsmenn Icelandair nú í morgun.