Icelandair fellir niður sumarflug til Halifax og Cleveland

Þotur Icelandair munu ekki snúa aftur til tveggja borga vestanhafs í sumar og skrifast það meðal annars á kyrrsetningu MAX þota félagsins.

Frá Cleveland. Mynd: Icelandair

Kanadíska borgin Halifax hefur lengi verið hluti af sumaráætlun Icelandair en að þessu sinni verður ekkert af ferðum flugfélagsins til borgarinnar. Haft er eftir upplýsingafulltrúa flugvallarins í Halifax í frétt The Chronicle Herald að breytingin skrifist á kyrrsetningu Boeing MAX þota Icelandair.

Það mun einnig vera ástæðan fyrir því að flugfélagaið mun ekki taka upp þráðinn í ferðum sínum til bandarísku borgarinnar Cleveland í sumar. Þangað hóf félagið að fljúga síðastliðið vor og hafði ráðgert að snúa þangað á ný í maí. Staðarblaðið The Cleveland Plain Dealer hefur það hins vegar eftir talsmanni Icelandair vestanhafs að ástandið á MAX þotunum hafi haft sitt að segja varðandi þessa ákvörðun og Cleveland hafi verið einn þeirra áfangastaða sem þurfti að fella niður. Sömu örlög biðu flugsins til Halifax sem fyrr segir.

Þrjár af þeim 33 þotum sem Icelandair hefur til umráða eru af gerðinni Boeing MAX og byggir sumaráætlun félagsins á níu þotum af þessari gerð. Túristi hafði það eftir Ásdísi Pétursdóttur, upplýsingafulltrúa Icelandair, í gær að engin ákvörðun hafi verið tekin um hvernig brugðist verði við ef kyrrsetning MAX þotanna dregst á langinn.

Miðað við fréttir frá Halifax og Cleveland þá hefur félagið alla vega fellt niður ferðir þangað vegna ástandsins.