Icelandair og fleiri evrópsk flugfélög leggja MAX þotunum

Eftir ákvarðanir breskra, þýskra og franskra flugmálayfirvalda um að banna tímabundið ferðir Boeing MAX 8 þota um flugvelli og loftrými þá hafa evrópsk flugfélög lagt þessum flugvélum.

Ein af Boeing MAX þotum Icelandair. Mynd: Boeing

Icelandair Group hefur ákveðið að taka allar þrjár Boeing 737 MAX 8 flugvélar sínar úr rekstri um óákveðinn tíma. Þetta kemur fram í tilkynningu. Þar segir að fylgst sé náið með þróun mála og að starfsmenn flugfélagsins vinni áfram með flugmálayfirvöldum á Íslandi, í Evrópu og Bandaríkjunum varðandi næstu skref.

„Miðað við þær upplýsingar sem liggja fyrir, þá öryggisferla sem félagið fylgir, sem og þjálfun áhafna þess, telur félagið vélarnar öruggar.
Til skamms tíma mun þessi ráðstöfun hafa óveruleg áhrif á rekstur félagsins þar sem aðeins er um 3 vélar að ræða af 33 farþegavélum í flota félagsins og því hefur félagið svigrúm til að bregðast við á næstu vikum,“ segir jafnframt í tilkynningunni.

Stjórnendur Norwegian tóku sömu ákvörðun og hafa lagt 18 MAX þotum og það hefur flugfélag ferðaskrifstofunnar TUI einnig gert.

Icelandair hefur í dag fengið afhentar sex Boeing MAX þotur og þar af eina af gerðinni MAX 9. Þrjár þessara flugvéla eru í flugskýli á Keflavíkurflugvelli þar sem unnið er að því að innrétta þær og gera tilbúnar fyrir áætlunarflug.