Isavia með tryggingu í flugvélum sem WOW ekki á

Heimildir Fréttablaðsins herma að Isavia og WOW hafi gert með sér samkomulag um að flugfélagið skilji alltaf eftir eina flugvél við Leifsstöð.

wow gma Friðrik Örn Hjaltested
Mynd: Friðrik Örn Hjaltested / WOW air

Þær tíu Airbus þotur sem WOW air nýtir í Íslandsflug í dag eru allt leiguvélar. Engu síður hefur Isavia gert samkomulag við flugfélagið um að ávallt sé ein flugvél úr flota WOW air tiltæk á Keflavíkurflugvelli samkvæmt frétt Fréttablaðsins. Þannig hefur Isavia færi á að kyrrsetja flugvélina ef WOW air lendir í greiðsluerfiðleikum eða fer í þrot þar sem eigandi þotunnar getur aðeins fengið hana til sín á ný með því að gera upp skuldir WOW við Keflavíkurflugvöll.

Isavia hefur þar með samþykkt að halda skuld WOW air lifandi í skjóli þess að ríkisfyrirtækið geti á endanum kyrrsett eign sem WOW er með á leigu samkvæmt þessari frétt Fréttablaðsins. Hvorki Isavia né WOW air hafa í dag borið fullyrðingar blaðsins tilbaka og talsmenn fyrirtækjanna tveggja hafa ávallt neitað að tjá sig um meinta skuld flugfélagsins á Keflavíkurflugvelli þegar eftir því hefur verið óskað. Nýjasta vísbendingin um að hún sé þó til staðar er gagnrýni forstjóra Icelandair á skuldasöfnun keppinauta á Keflavíkurflugvelli.

Lausleg athugun Túrista á Flightrader vefsíðunni leiðir í ljós að síðustu daga hefur ein eða fleiri af þotum WOW verið skilin eftir á Keflavíkurflugvelli. Síðustu þrjár morgna hafa þoturnar TF-NEO og TF-GPA til að mynda ekki farið út til Evrópu að morgni en eigandi beggja þessara flugvélar er fyrirtækið Air Lease Corporation. Hefur Túristi óskað eftir viðbrögðum frá forsvarsmönnum fyrirtækisins við frétt Fréttablaðsins um þetta meinta samkomulag Isavia og WOW air.