Isavia tjáir sig ekki um gagnrýni Boga

Forstjóri Icelandair Group var harðorður í garð Isavia í ræðu sinni á aðalfundi á föstudag. Forsvarsfólk Isavia ætlar þó ekki að svara honum að sinni.

Flugvélar Icelandair og WOW við Leifsstöð. Mynd: Isavia

Rekstur Icelandair Group takmarkast ekki við flugfélagið Icelandair því innan samsteypunnar eru meðal annars stærsta hótelfyrirtæki landsins og Iceland Travel, einn stærsti skipuleggjandi Íslandsferða. Icelandair Group hafði jafnframt frumkvæði að stofnun fjárfestingarsjóðs sem hefur fjárfest í afþreyingartengdri ferðaþjónustu eins og Bogi Nils Bogason, forstjóri fyrirtækisins, rakti á aðalfundi félagsins fyrir helgi. Sagði hann að áhersluna, í rekstri og fjárfestingum Icelandair Group, hafa verið á að laða til landsins virðisaukandi ferðamenn.

Hann vill hins vegar meina að stefnuleysi yfirvalda hafi orðið til þess að ferðamannaflóran hér á landi sé önnur. „Engin stefna var mótuð og hingað hafa streymt ferðamenn sem hafa keypt flugfargjöld langt undir kostnaðarverði, þrátt fyrir að lítil sem engin þjónusta sé innifalin. Þetta hefur verið látið viðgangast, að því virðist, algjörlega eftirlitslaust af yfirvöldum og opinbera hlutafélagið sem rekur Keflavíkurflugvöll virðist hafa spilað með og í raun hvatt til þessarar þróunar. Samkeppnisaðilar hafa fengið að safna upp skuldum á Keflavíkurflugvelli sem skekkir verulega samkeppnisstöðu á markaði.“

Það dylst engum að þarna er forstjórinn meðal annars að vísa til meintrar skuldasöfnunnar WOW air á Keflavíkurflugvelli en Bogi ætti að þekkja hana vel enda keypti hann WOW í byjun nóvember og fékk þá aðgang að skuldastöðu félagsins. Þrátt fyrir þessa hörðu gagnrýni stærsta viðskiptavinar Isavia þá vilja forsvarsmenn þess ekki tjá sig um hana. „Við hjá Isavia sjáum ekki tilefni til að tjá okkur um yfirlýsingar forstjóra Icelandair Group að svo stöddu,“ segir í svari Isavia við fyrirspurn Túrista.

Þess má geta að í morgunútvarpi Rásar 2 í dag ítrekaði Bogi gagnrýni sína á uppsöfnuð ógreidd lendingagjöld WOW air. „Opinberir aðilar virðast vera að fjármagna ósjálfbæran rekstur.“