Íslandsflugið verr nýtt

Auðu sætunum í þotunum sem flugu til og frá Keflavíkurflugvelli fjölgaði í síðasta mánuði.

Mynd: Isavia

Fyrstu mánuðir ársins er flugfélögunum oftast erfiðir því þá eru færri á ferðinni og fargjöldin almennt lág. Og í nýliðnum febrúar lækkaði sætanýtingin, í flugi til og frá Keflavíkurflugvelli, úr áttatíu prósentum niður í 78 prósent samkvæmt upplýsingum frá Isavia. Fyrir liggur að sætanýtingin hjá WOW air lækkaði um fjögur prósentustig í síðasta mánuði og var 84 prósent og þar liggur megin skýringin á lægri nýtingu í öllu flugi til og frá landinu. Hjá Icelandair hækkaði nýtingin hins vegar lítillega eða upp í 75,6 prósent en flugfélögin tvö stóðu undir nærri 7 af hverjum 10 áætlunarferðum frá Keflavíkurflugvelli í febrúar.

Sem fyrr segir þá hækkaði hlutfall seldra sæta um borð hjá Icelandair sáralítið í febrúar jafnvel þó helsti keppinautur félagsins sé í mikilli krísu. Það sama var upp á teningnum í janúar en hins vegar voru þotur félagsins þéttsetnari í lok síðasta árs en dæmi er um í seinni tíð. Ástæðan fyrir því að nýtingin batnar ekki meira hjá Icelandair en raun ber vitni kann að vera sú að fargjöld félagsins hafi hækkað. Félagið veitir þó ekki reglulegar upplýsingar um verðþróun öfugt við það sem þekkist hjá SAS og Norwegian, tveimur stærstu flugfélögum Norðurlanda. Þar með fæst ekki úr því skorið hvort skýringin liggur í verðstefnu eða hvort vandræði WOW skili sér ekki að neinu ráði í aukinni sölu hjá Icelandair nú í lok vetrar