Kynnir rannsókn á þætti bókunarfyrirtækja í ferðaþjónustu

Fyrirtæki í ferðageiranum greiða mörg hver umtalsverðan hluta af tekjum sínum í þóknanir til söluaðila. Ný rannsókn með fókus á þessa milliliði og umfang þeirra verður kynnt á föstudag.

Booking.com er eitt þeirra fyrirtækja sem miðla þjónustu íslenskra ferðaþjónustufyrirtækja fyrir þóknun. Skjámynd: Booking

Á föstudaginn verða niðurstöður rannsóknar um þátt bókunarfyrirtækja í rekstrarumhverfi ferðaþjónustunnar kynntar. Rannsóknin er unnin af Árna Sverri Hafsteinssyni hjá Rannsóknasetri verslunarinnar og er kynningin haldin í samstarfi Íslenska ferðaklasans og Ferðamálastofu.

„Ferðaþjónustuaðilar á Íslandi, líkt og á heimsvísu, selja stóran hluta afurða sinna í gegnum bókunarþjónustur (e. Online Travel Agencies, OTAs). Viðskiptalíkön ólíkra bókunarþjónusta eru afar áþekk, hvort sem um er að ræða Booking, Expedia, Travelocity eða TripAdvisor. Bókunarþjónustur taka jafnan hluta sölutekna sem þóknun og getur hún verið íþyngjandi fyrir ferðaþjónustufyrirtækið. Í verkefninu er hlutverk bókunarþjónusta skoðað, áhrif þeirra á samkeppnisumhverfi og fjárhagslegt umfang á íslenskum gistimarkaði. Þá er leitað leiða til að bæta það fyrirkomulag sem nú ríkir á markaði fyrir gistiþjónustu,“ segir í tilkynningu frá Íslenska ferðaklasanum.

Kynningin fer fram í hádeginu á föstudaginn í Húsi ferðaklasans, Fiskislóð 10 og eru allir velkomnir. Erindinu verður einnig streymt beint og upptakan aðgengileg á facebooksíðu Ferðamálastofu.