Kyrrsetja Boeing þoturnar

Enginn komst lífs af þegar flugvél af Ethiopian Airlines hrapaði til jarðar skömmu eftir flugtak í Eþíópíu í gærmorgun. Nú hafa forsvarsmenn flugfélagsins og kínversk stjórnvöld fyrirskipað að þotunum verði ekki flogið í bráð.

Flugvél af tegundinni Boeing 737-MAX8. Mynd: Boeing

Hundrað fimmtíu og sjö farþegar auk áhafnar létu lífið þegar þota á vegum Ethiopian Airlines hrapaði til jarðar í gær. Flugvélin var á leið frá Addis Ababa, höfuðborg Eþíópíu, til Nairobi í Kenía og var af gerðinni Boeing 737 MAX 8. Þetta er annað flugslysis á skömmum tíma þar sem vél af þessari gerð kemur við sögu. Í október fórst þota Lion Air í Indónesíu og um borð voru 189 farþegar auk áhafnar. Báðar flugvélarnar voru nýjar enda voru fyrstu MAX þoturnar teknar í notkun fyrir tæpum tveimur árum síðan.

Í flugflota Ethiopian Airlines eru fjórar aðrar Boeing MAX 8 og hafa stjórnendur flugfélagsins tekið þá ákvörðun að kyrrsetja þær. Kínversk yfirvöld hafa sömuleiðis fyrirskipað þarlendum flugfélögum að hætta allri notkun farþegaþotna af þessari gerð. Í dag eru í notkun 352 Boeing 737 MAX þotur víðs vegar um heim og hátt í þrjú þúsund fleiri hafa verið pantaðar. Í frétt Washington Post er haft eftir bandarískum sérfræðingi að gera megi ráð fyrir að Boeing þurfi að kalla inn allar MAX þotur til skoðunar ef í ljós koma líkindi milli flugslysanna í Eþíópíu í gær og Indóseníu sl. haust.

Icelandair er með þrjár vélar af gerðinni Boeing 737 MAX 8 í notkun. Sex slíkar vélar bætast við flugflotann nú á vormánuðunum. Í gær hafði RÚV það eftir Jens Þórðarsyni, framkvæmdastjóra rekstrarsviðs Icelandair, að félagið fylgist grannt með gangi mála. „Við erum í samstarfi við framleiðanda vélarinnar alla daga og í þessu tilfelli þá er það alltaf Boeing sem myndi leggja fram upplýsingar þegar eitthvað kemur út úr rannsókn slyssins, ef þau telja tilefni til aðgerða,“ sagði Jens.