Kyrrsetja MAX þotur sínar fram í júlí

Stjórnendur Air Canada gáfu út í dag að tvær af hverjum hundrað áætlunarferðum félagsins yrðu felldar niður vegna kyrrsetningar á Boeing MAX þotum félagsins.

aircanada
Mynd: Air Canada

Auk Icelandair hafa flugfélögin Norwegian og Air Canada nýtt Boeing MAX þotur í Íslandsflug sitt. Allar flugvélar af þeirri gerð voru hins vegar kyrrsettar í síðustu viku og í tilkynningu sem kanadíska flugfélagið sendi frá sér í dag segir að nú hafi flugáætlun félagsins verið endurskipulögð fram í lok næsta mánaðar. Ekki tókst að fylla skarðið sem MAX þoturnar skildu eftir sig í flugflota félagsins í öllum tilvikum og því þarf að fella niður er gera breytingar á tveimur af hverjum hundrað áætlunarferðum félagsins næstu vikur.

Í tilkynningu Air Canada segir jafnframt að ekki sé gert ráð fyrir að Boeing MAX þotur félagsins fari aftur á flug fyrr en í fyrsta lagi 1. júlí. Til að halda flugáætlun sumarsins í skorðum hefur Air Canada leigt vélar og áhafnir af Air Transit flugfélaginu.

Þess má geta að Air Canada keypti fjórar Airbus A320 þotur af WOW air í vetur og voru það einu þoturnar í flota íslenska félagsins sem voru í eigu þess.