Leiguvélar innan seilingar hjá Icelandair

Flugfloti Icelandair verður stækkaður fyrir sumarið og félagið því betur undir það búið að fylla það skarð sem myndast hefur með kyrrsetningu Boeing MAX þotanna.

Ein af Boeing MAX 8 þotunum sem Icelandair hefur tekið í notkun. Mynd: Boeing

Sumaráætlun Icelandair byggir á því að í flugflota þess séu sex Boeing MAX 8 þotur og þrjár MAX 9. Flugvélar af þessari tegund voru hins vegar kyrrsettar eftir að þota Ethopian Airlines hrapaði til jarðar fyrir þremur vikum síðan. Ekki liggur fyrir hvenær heimilt verður að fljúga flugvélunum á ný en forsvarsmenn Icelandair hafa gefið út að ef kyrrsetningin dregst á langinn þá komi til greina að leigja þotur og gera breytingar á áætlun.

Í síðustu viku hætti félagið svo við sumarflug til Cleveland og Halifax og nú herma heimildir Túrista að Icelandair gangi á næstu dögum frá leigusamningi á þotum sem munu bætast í flugflotann á næstunni. Ekki liggur fyrir hversu margar þoturnar verða og af hvaða tegund en bróðurpartur þeirra flugvéla sem Icelandair er með í rekstri eru Boeing 757 þotur með sæti fyrir 183 farþega. Boeing MAX 8 þoturnar taka hins vegar 160 farþegar en sæti eru fyrir sextán farþega í viðbót í MAX 9.