Leituðu aftur til Icelandair

Það eru þrír mánuðir síðan kaupsamningi Icelandair á WOW air var rift. Í vikunni kannaði forsvarsfólk WOW air á ný áhuga keppinautarins á yfirtöku.

icelandair wow
Myndir: Icelandair og WOW

Í byrjun nóvember var tilkynnt um kaup Icelandair á WOW air en það var Skúli Mogensen, eigandi WOW air, sem hafði frumkvæði að málinu. Rúmum þremur vikum síðar féll Icelandair hins vegar frá kaupunum en síðar sama dag var tilkynnt um viðræður Skúla og Indigo Partners. Þær hafa staðið yfir síðan þá og enn er ekki komið á hreint hvort af fjárfestingu Indigo Partners í WOW air verður. Niðurstöðu var að vænta í síðasta lagi í gær en nú er ljóst að viðsemjendur ætla að gefa sér allt að einn mánuð í viðbót.

Þrátt fyrir yfirstandandi samningaviðræður við Indigo Partners þá leitaði forvarsfólk WOW air til Icelandair í vikunni til að kanna áhugann á því taka upp þráðinn í yfirtökuferlinu sem var í lok nóvember. Þetta herma áreiðanlegar heimildir Túrista. Ekki mun hafa reynst áhugi á því innan raða Icelandair að hefja að nýju kaupviðræður við Skúla.

Sem fyrr segir ætla Indigo Partners og Skúli Mogensen að gefa sér einn mánuð í viðbót í viðræður um aðkomu bandaríska félagsins að rekstri íslenska lággjaldaflugfélagsins. Í tilkynningu sem send var út fyrir miðnætti í gær kom ekki fram um hvort skuldabréfaeigendur þurfa að gefa grænt ljós á framlengingu viðræðnanna.

Það eru þó vísbendingar um að lausafjárstaða WOW sé orðin erfið því samkvæmt frétt Mbl.is þá drógust launagreiðslur hjá fyrirtækinu um mánaðamótin. Túristi hefur óskað eftir upplýsingum frá Samgöngustofu um hvernig eftirliti með flugrekanda í fjárhagsvanda er háttað en samkvæmt svari frá stofnuninni þá eru ekki veittar upplýsingar um málefni einstakra fyrirtækja. Þess má geta að Þórólfur Árnason, forstjóri Samgöngustofu og Liv Bergþórsdóttir, stjórnarformaður WOW air, leiddu saman símafyrirtækið Tal á sínum tíma.