Nú verður Liv að svara fyrir stöðu WOW

Getur WOW air staðið við skuldbindingar sínar gagnvart neytendum, starfsmönnum, kröfuhöfum, birgjum og stjórnvöldum? Vonandi er svarið já en best væri ef það kæmi frá stjórnarformanni flugfélagsins en ekki forstjóra þess og eiganda.

wowair freyja

Það leikur vafi á því hvort Skúli Mogensen og Indigo Partners eigi ennþá í samningaviðræðum um fjárfestingu þess síðarnefnda í WOW air. Blaðafulltrúi bandaríska fjárfestingafélagsins neitaði í gærkvöld að svara spurningu Túrista um hvort viðræðurnar væru í gangi eða ekki. Í svari Svanhvítar Friðriksdóttur, upplýsingafulltrúa WOW air, sagði að þau gætu ekki tjáð sig um ferlið þar sem skuldabréf flugfélagsins væru skráð í kauphöll í Svíþjóð.

Fréttir Morgunblaðsins og Fréttablaðsins í morgun, þess efnis að stjórnendur WOW air hafi óskað eftir ríkisábyrgð á láni frá Arion banka í vikunni, eru enn frekari vísbending um að fulltrúar Indigo Partners séu í raun farnir frá samningaborðinu. Líka sú staðreynd að stjórnendur WOW air leituðu um síðustu mánaðamót til Icelandair.

Það má því ljóst vera að staða WOW air versnar dag frá degi og á sama tíma aukast skuldbindingar félagsins. Ekki bara gagnvart farþegum og starfsmönnum heldur líka kröfuhöfum, birgjum og stjórnvöldum. Slæm staða WOW air er hins vegar ekki einkamál Skúla Mogensen og þetta snýst ekki um það hvort hann hafi tapað milljörðum króna á flugfélaginu og jafnvel mannorði sínu líka.

Það er því slæmt að ekki fáist skýr svör frá WOW þar sem félagið skýlir sér á bakvið reglur sænskrar kauphallar um upplýsingagjöf. Og einu skiptin sem Skúli tjáir sig í dag er í bréfum til starfsmanna. Þar hefur hann hins vegar farið með hálfsannleik og í ljósi þeirra miklu hagsmuna sem í húfi eru leikur varla nokkur vafi á því að Liv Bergþórsdóttir, stjórnarformaður WOW air, verði að stígi fram á sjónarsviðið og skýra hver staða WOW air er raunverulega.

Getur félagið tekist á við skuldbindingar sínar án þess að mismuna einum hópi á kostnað annars? Er neytendum óhætt að kaupa farmiða, verða lífeyrissjóðsskuldir greiddar, er félagið með örugga samninga við leigusala og er í raun til peningur til að reka félagið áfram fram yfir næstu mánaðamót?

Ef Liv treystir sér ekki til að svara þessum spurningum þá verða stjórnarmennirnir Davíð Másson eða Helga Hlín Hákonardóttir að gera það því þau bera einnig ábyrgð á því hvernig komið er fyrir WOW air í dag.