Óákveðið hvort Ingimundur og Matthías fari í stjórn Isavia

Sjálfstæðisflokkur og Framsókn skipa formann og varaformann stjórnar Isavia. Í svörum frá flokkunum tveimur kemur fram að ekki sé ákveðið hvort núverandi fulltrúar verði skipaðir á ný á aðalfundi fyrirtækisins sem fram fer í næstu viku.

Stjórn Isavia (frá vinstri) Nanna Margrét Gunnlaugsdóttir, Matthías Imsland, Valdimar Halldórsson, Eva Pandora Baldursdóttir og Ingimundur Sigurpálsson. MYNDIR: ÍSLANDSPÓSTUR, MIÐFLOKKURINN, ALÞINGI, HVALASAFNIÐ OG STJÓRNARRÁÐIÐ

Það er Isavia sem á og rekur flugvelli landsins og stjórn þessa opinbera hlutafélags er ávallt skipuð fulltrúum flokkanna sem eiga sæti á Alþingi. Eignarhald flugvalla í Noregi og Svíþjóð er með sama hætti en þar tíðkast ekki að skipa stjórnir opinberra fyrirtækja pólitískt. Í Svíþjóð er reglan sú að sérstök nefnd skilgreinir þær hæfniskröfur sem gera skal til þeirra sem sitja í stjórnum ríkisfyrirtækja. Og hjá hinu norska Avinor er sérstaklega kveðið á um að innan stjórnarinnar skuli vera næg þekking til að tryggja að fyrirtækið sýni frumkvæði í rekstri flughafnar sem og í flugöryggismálum.

Hér heima eru það einfaldlega fulltrúar stjórnarflokkanna þriggja sem skipa stjórn Isavia auk eins Pírata og fulltrúa Miðflokksins. Starfsári núverandi stjórnar lýkur á aðalfundi Isavia sem haldinn verður á fimmtudaginn í næstu viku. Það er þó ekki útlit fyrir mannabreytingar að hálfu VG, Miðflokksins né Pírata samkvæmt þeim svörum sem Túristi hefur fengið frá flokkunum þremur. Í svari Willum Þórs Þórssonar, varaformanns þingflokks Framsóknarflokksins, segir að ekki hafi verið tekin endanleg ákvörðun um hvort sömu fulltrúa og síðast verði tilefndir. Matthías Imsland, varaformaður stjórnar Isavia, er fulltrúi Framsóknar og Ingveldur Sæmundsdóttir, aðstoðarkona Sigurðar Inga Jóhannssonar, samgönguráðherra og formanns Framsóknarflokksins, er varamaður flokksins.

Það er Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, sem fer fyrir hlut ríkisins í Isavia og Sjálfstæðisflokkurinn skipar líka stjórnarformann Isavia. Fulltrúi flokksins í það embætti síðustu ár hefur verið Ingimundur Sigurpálsson, forstjóri Íslandspósts. Aðspurð um hvort Ingimundur verði fulltrúi Sjálfstæðisflokksins á ný þá segir í svari Svanhildar Hólm Valsdóttur, aðstoðarmanns fjármálaráðherra, að ákvörðun um það verði tekin fyrir aðalfundinn í næstu viku. Sem fyrr segir þá gegnir Ingimundur starfi forstjóra Íslandspósts og hefur ríkið nú í tvígang þurft að veita fyrirtækinu lán til rekstrarins. Ingimundur telur sig þó hafa tíma fyrir bæði störfin eins og kom fram í svari hans til Túrista í haust.

Forsvarsfólk Isavia hefur ekki viljað tjá sig um harða gagnrýni Boga Nils Bogasonar, forstjóra Icelandair Group, á fyrirtækið sl. föstudag. Þá fór fram aðalfundur Icelandair og í ræðu sinni sagði forstjórinn að stefnuleysi stjórnvalda og Isavia hafi orðið til þess að hingað hafi streymt ferðamenn sem hafa keypt flugfargjöld langt undir kostnaðarverði og að flugfélög hafi  fengið að safna upp skuldum á Keflavíkurflugvelli. Dylst engum að þar er forstjórinn meðal annars að vísa í ógreidd lendinga- og farþegagjöld WOW air.

Eins og Túristi hefur áður fjallað um þá er Matthías Imsland, varaformaður stjórnar Isavia, einn af stofnendum WOW air. Í svari til Túrista sl. haust  sagðist hann ekki telja sig þurfa að víkja af stjórnarfundum þegar málefni tengd WOW eru á dagskrá. „Ég hætti öllum afskiptum af WOW fyrir 6 árum síðan og hef síðan þá ekki haft neina hagsmuni af því fyrirtækinu,“ sagði Matthías en hann situr einnig sem fulltrúi Framsóknar í stjórn Fríhafnarinnar, dótturfélags Isavia.

Sem fyrr segir fást ekki skýr svör um hvort þeir Ingimundur og Matthías verða áfram fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar í stjórn Isavia. Það stefnir hins vegar í að Nanna Margrét Gunnlaugsdóttir, varaþingmaður Miðflokksins, Valdimar Halldórsson frá VG og Eva Pandora Baldursdóttir, fyrrverandi þingkona Pírata sitji þar áfram.