Öllum ferðum WOW seinkað

Farþegar WOW air bíða nú frekari upplýsinga um hvernig þeir komast á leiðarenda. Nýtt hlutafé sagt innan seilingar. Gera má ráð fyrir að hátt í þúsund farþegar hafi beðið í nótt á flugstöðvum í Bandaríkjunum og Kanada eftir flugi sínu til Íslands.

wow gma Friðrik Örn Hjaltested
Mynd: WOW air

Þotur WOW snéru ekki tilbaka frá Bandaríkjunum og Kanada í nótt og brottförum til og frá Evrópu í dag hefur verið seinkað. Í tilkynningu á heimasíðu flugfélagsins kemur fram að fyrirtækið sé lokametrunum með að klára samningaviðræður við nýja fjárfesta. Það liggur þó ekki fyrir afhverju stöðva þarf allar flugferðir á þeim tímapunkti en nánari upplýsingar um stöðu mála verða veittar klukkan níu samkvæmt því sem fram kemur í tilkynningu.

Það er ljóst að farþegar flugfélagsins sem áttu lenda núna í morgunsárið bíða enn á flugvöllum vestanhafs. Um er að ræða farþega frá sex ólíkum borgum og gera má ráð fyrir að hópurinn telji hátt í þúsund einstaklinga. Stór hluti þessa fólks á væntanlega pantað flug áfram með WOW til Evrópu í dag þar sem tengifarþegar eru margir hjá WOW.