Reynsla af ferðaþjónustu og flugrekstri mikilvæg

Þórunn Reynisdóttir er í framboði til stjórnar Icelandair. Hún leggur áherslu á víðtæka reynslu sína í ferða- og fluggeiranum.

Þórunn Reynisdóttir er í framboði til stjórnar Icelandair.

Ný stjórn Icelandair verður kjörin á aðalfundi félagsins næstkomandi föstudag, 8. mars. Þórunn Reynisdóttir, forstjóri Ferðaskrifstofu Íslands, er óháður frambjóðandi til stjórnar og hún telur mikilvægt að stjórnarmenn í jafn þjóðhagslega mikilvægu fyrirtæki og Icelandair hafi reynslu á sviði ferðaþjónustu, flugrekstri og af mörkuðum félagsins.

Þórunn hefur sjálf yfir þrjátíu ára reynslu af stjórnunarstörfum í ferðaþjónustu eins og rakið er í tilkynningu. „Þórunn hefur meðal annars haft með höndum stjórnunarstörf hjá hótelum, ferðaskrifstofum og flugfélögum. Hún hóf feril sinn hjá Flugleiðum, þar sem hún hefur varið yfir tuttugu og fimm árum af starfsævi sinni. 26 ára varð Þórunn stöðvarstjóri Flugleiða á Kastrup í Kaupmannahöfn eftir sex ára starf að sölumálum félagsins. Hún var hótelstjóri Hótel Loftleiða í þrjú ár og stýrði sölumálum Hertz bílaleigunnar um sex ára skeið.“

Þórunn var jafnframt forstjóri ferðaskrifstofunnar Destination Europe í Maine, Bandaríkjunum, um sex ára skeið, átti og rak AVIS bílaleiguna á Íslandi í sex ár og starfaði sem sölu og markaðsstjóri Iceland Express. Þórunn var um tíma ráðgjafi Isavia um markaðssókn í Bandaríkjunum.

Auk Þórunnar eru sex aðrir frambjóðendur til stjórnar Icelandair eins og áður hefur verið fjallað um.