Ryanair skoðar tækifæri í Íslandsflugi

Útsendarar írska lággjaldaflugfélagsins Ryanair voru hér á landi í vetur til að kanna möguleika á áætlunarflugi til Íslands.

Mynd: Ryanair

„Lág flugvallagjöld eru forsenda fyrir nýjum áfangastöðum hjá Ryanair,“ sagði blaðafulltrúi Ryanair í viðtali við Túrista sumarið 2013 en þá höfðu stjórnendur félagsins skoðað möguleika á flugi til Keflavíkurflugvallar og jafnvel Akureyrar. Ekkert varð úr þeim áætlunum en samkvæmt áreiðanlegum heimildum Túrista þá voru fulltrúar Ryanair hér á landi á ný í vetur til að kanna möguleika á Íslandsflugi. Sátu þeir meðal annars fundi með fulltrúum hins opinbera.

Afstaða forsvarsmanna Ryanair til flugvallagjalda mun þó vera óbreytt og munu þeir hafa farið fram á sérkjör eigi þotur þeirra að leggja leið sína til Íslands.

Ryanair er stærsta flugfélag Evrópu þegar litið er til farþegafjölda því í fyrra flugu um 130 milljónir farþega með félaginu á milli samtals 215 flugvalla. Félagið er með 84 starfstöðvar í Evrópu og Norður-Afríku og gæti því flogið hingað til lands frá fjölda mörgum stöðum.

Þess ber að geta að Túristi hefur óskað eftir upplýsingum frá Ryanair um möguleg áform félagsins hér á landi en ekki fengið svör. Það er því ekki víst að Íslandsflug komi sterklega til greina hjá félaginu en stjórnendur þess eru þekktir fyrir að sækja það hart að fá opinbera styrki eða borga lítið fyrir afnot af flugvöllum. Síðustu ár hefur félagið þó í auknum mæli hafi flug til dýrari flugvalla, til dæmis Frankfurt, Kaupmannahafnar og Brussel.

Túristi náði tali af forstjóra félagsins fyrr í þessum mánuði þar sem hann sagðist fylgjast lítið með íslenskum fluggeira.