Sama framsóknarfólkið í stjórn Isavia

Þingflokkur Framsóknar tilnefnir þau Matthías Imsland og Ingveldi Sæmundsdóttur í stjórn Isavia fyrir aðalfund fyrirtækisins sem fram fer á morgun.

Framsóknarmaðurinn Matthías Imsland er varaformaður stjórnar Isavia. Hann situr jafnframt í stjórn Fríhafnarinnar, dótturfélags Isavia. Myndir: Isavia

Á morgun fer fram aðalfundur Isavia og þá verður ný fimm manna stjórn skipuð af Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra. Í fráfarandi stjórn eiga sæti þrír fulltrúar stjórnarflokkanna þriggja auk eins pírata og fulltrúa Miðflokksins. Líkt og Túristi greindi frá í síðustu viku þá hafa þingflokkar VG, Pírata og Miðflokks ákveðið að tilnefna sömu einstaklinga í stjórn og varastjórn Isavia. Framsókn og Sjálfstæðisflokkur höfðu hins vegar ekki gert upp hug sinn í síðustu viku en flokkarnir tveir hafa átt formann og varaformann stjórnar Isavia.

Þingflokkur Framsóknar hefur nú ákveðið að halda sig við sömu fulltrúa og síðast, þau Matthías Imsland og Ingveldi Sæmundsdóttur, aðstoðarmann Sigurðar Ingi Jóhannssonar samgönguráðherra og formann flokksins. „Við erum með hæfa og reynslumikla fulltrúa í stjórn, með mikla þekkingu á þessu sviði og leggjum ekki til breytingar,“ segir í svari frá Willum Þór Þórssyni, varaformanni þingflokks Framsóknar.

Matthías Imsland hefur síðustu ár verið varaformaður stjórnar Isavia en formaður hennar er Ingimundur Sigurpálsson, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins. Ekki liggur fyrir hvort Ingimundur, sem sagði nýverið starfi sínu sem forstjóri Íslandspósts lausu, verður á ný fulltrúi Sjálfstæðisflokksins. Ákvörðun um það verður tekin fyrir aðalfund sagði í svari aðstoðarmanns fjármálaráðherra, til Túrista, í síðustu viku. Engar frekari upplýsingar fást um það val en aðalfundurinn fer fram á morgun klukkan 15 í Þingsal Hótels Natura.

Í ljósi gagnrýni forstjóra Icelandair á skuldsetningu WOW á Keflavíkurflugvelli og meintan samning milli Isavia og WOW, um tryggingar í leiguflugvélum, þá má gera ráð fyrir að umræða á aðalfundinum verði með öðrum hætti en oft áður. En þess ber að geta að fyrrnefndur Matthías Imsland er einn af stofnendum WOW air.