Skuldabréf WOW fóru í vanskil í febrúar

Það er ekki rétt að allir kröfuhafar, nema Isavia, hafi samþykkt að breyta kröfum í hlutafé. Guðmundur Ingvi Sigurðsson, lögmaður, sem fer fyrir hópi skuldabréfaeigenda, segist ekki ætla að leggja mat á núverandi rekstrarplön WOW air.

Mynd: WOW air

„Skuldabréfaeigendur voru að samþykkja það að breyta kröfum sínum í hlutafé sem styrkir félagið verulega,“ sagði Skúli Mogensen, forstjóri WOW air, í viðtali við RÚV í gær. Stuttu síðar sagði Mbl.is aftur á móti að fjár­fest­ar, sem tóku þátt í skulda­bréfa­út­boði WOW air í sept­em­ber síðastliðnum, hafi ákveðið að taka fé­lagið yfir og breyta kröf­um sín­um í hluta­fé. „Ákvörðunin er tek­in á grund­velli heim­ild­ar sem virkjaðist í gær þegar ljóst var að WOW air myndi ekki standa við greiðslu ríf­lega 150 millj­óna króna vaxta­greiðslu af skulda­bréfa­flokkn­um,“ sagði í frétt Morgunblaðsins.

Misræmið í fréttum af aðdraganda þess að skuldabréfaeigendur eru nú komnir með hlut í WOW air er því töluvert. Guðmundur Ingvi Sigurðsson, lögmaður, sem fer fyrir hópi skuldabréfaeigenda, segir þó báðar útgáfur réttar. Hann bendir á að skuldabréfaaeigendur eigi þann kost að taka yfir félagið þar sem þeir eru með veð í hlutafé þess og vanskil  á vöxtum á mánudag hafi ekki skipt sköpum. „Skuldabréfið fór í raun í vanskil í lok febrúar þar sem ekki var búið að uppfylla fjárhagsskilyrði þess. Þar með virkjast réttur skuldabréfaeigenda og þeir munu taka félagið yfir og núverandi hlutafé, sem eru í eigu Títan, þurrkast út,“ bætir Guðmundur Ingvi við. Hann segir það vera tilgangslaust að uppfæra skráningu WOW air í fyrirtækjaskrá núna því fyrst þurfi að klára allt ferlið. Ekki sé til að mynda búið að reikna út hlutföll hvers og eins eigenda. 

Fyrstu fréttir af skuldabreytingum WOW air í gær bárust í hádegisfréttum RÚV. Þar kom fram að allir kröfuhafar WOW air nema Isavia hafi samþykkt formlega að breyta fimmtán milljarða króna kröfum sínum í 49 prósenta hlut í félaginu. Var þetta haft eftir einum af kröfuhöfunum, Sigþóri Kristni Skúlasyni, forstjóra flugþjónustufyrirtækið Airport Associates. Bætti hann því við að leigusalar flugvélanna, sem WOW air notar, ætli einnig að taka þátt í samkomulaginu.

Í samtali við Túrista þá segir Guðmundur Ingvi, lögmaður, að þetta sé ekki rétt hjá Sigþóri. Það hafi ekki allir kröfuhafar umbreytt kröfum sínum en það sé ætlunin að fá þann hóp með í samkomulagið. „Það er byrjað að takast og við farin að fá kröfuhafa, sem stóðu utan við skuldabréfaflokkinn, í lið okkar. Eðlilega eru aðrir mótfallnir og vilja ekki gefa eftir skuldir sínar.“ Aðspurður um stöðu flugvélaeigenda þá segir Guðmundur Ingvi að hluti þeirra sé búinn að samþykkja breytingar á skuldabréfum og aðrir séu að melta málið.

Að sögn Guðmundar Ingva þá hófst þessi vinna skuldabréfaeigenda á laugardagskvöld og unnið hafi verið ótrúlega hratt. En eins og fram hefur komið þá er jafnframt unnið að því að fá inn fjárfesta að flugfélaginu og fengju þeir meirihluta gegn því að leggja WOW air til fé. Hefur fimm milljarða króna fjárfesting verið nefnd í því samhengi.

Það rekstrarplan sem nú er kynnt fjárfestum er unnið af WOW air og það sama á við um áætlanirnar sem kynntar voru fjárfestum í skuldabréfaútboðinu í haust. Þær reyndust ekki standast en Guðmundur Ingvi segir það ekki sitt að leggja mat á hvort núverandi áætlun geti staðist betur. Hann bendir á að í hópi skuldabréfaeigenda sé mikið af fjármálafólki og fagfjárfestum sem hafi reynslu af fyrirtækjarekstri.

Guðmundur Ingvi segist heldur ekki ætla að tjá sig um hvort lausafjárstaða WOW sé nægjanlega góð fyrir komandi mánaðamót. Það sé ljóst að tíminn sé knappur og umræðan ekki góð fyrir fyrirtækið.