Skúli sáttur miðað við aðstæður

Hlutfall bókaðra sæta í flugvélum WOW air var litlu lægra í febrúar en á sama tíma í fyrra. Leiðakerfi félagsins hefur dregist verulega saman.

wow radir
Að jafnaði voru 84 prósent sæta í flugvélum WOW air skipuð farþegum í febrúar. Mynd: WOW air

WOW air flutti 139 þúsund farþega til og frá landinu í febrúar eða um þriðjungi færri farþega en á sama tíma í fyrra. Framboð félagsins á flugsætum lækkaði á tímabilinu aðeins minna eða um 28 prósent. Það skýrist af færri áfangastöðum og ekki eins tíðum brottförum en tilgangurinn með samdrættinum er að rétta af rekstur flugfélagsins. Núna fljúga þotur WOW til að mynda ekki til Los Angeles, Pittsburgh eða San Francisco.

„Miðað við aðstæður er ég mjög sáttur hvernig okkur hefur tekist til í febrúar og ánægjulegt að sjá þann mikla stuðning sem við höfum verið að fá frá farþegum okkar. Við erum að sjá bætingu víða í rekstrinum og má þar nefna stundvísi félagsins sem er 81 prósent það sem af er ári en var á sama tíma í fyrra 47%. Ég vil nota tækifærið og þakka okkar frábæra starfsfólki fyrir þennan árangur og við munum vinna ótrauð áfram í bjóða virka samkeppni í flugi til og frá Íslandi öllum til hagsbóta,“ segir Skúli Mogensen forstjóri og stofnandi WOW air, í tilkynningu.

Sætanýting WOW air í febrúar var 84 prósent eða fjórum prósentustigum lægri en á sama tíma í fyrra. Skýringin á því að nýtingin er þetta há, þrátt fyrir aðstæður, kann meðal annars að liggja í lægri meðalfargjöldum og sameiningu flugferða.