Sorglegt segir fyrsti framkvæmdastjóri WOW

Baldur Oddur Baldursson leiddi WOW air í upphafi og var jafnframt einn af stofnendum fyrirtækisins. Hann er hryggur yfir tíðindum dagsins.

Baldur Oddur Baldursson, Matthías Imsland og Skúli Mogensen við stofnun WOW air í nóvember 2011. Mynd: WOW air

„Mér þykir vænt um fyrirtækið og vildi hag þess sem mestan. Það er sorglegt og leiðinlegt hvernig þetta fór,“ segir Baldur Oddur Baldursson, fyrsti framkvæmdastjóri WOW air, í samtali við Túrista. Baldur Oddur var jafnframt einn af stofnendum WOW air ásamt þeim Matthías Imsland, núverandi varaformanni stjórnar Isavia, og Skúla Mogensen. Skúli var í upphafi stjórnarformaður fyrirtækisins en tók við sem forstjóri í lok sumars 2012.

WOW air hóf sölu farmiða 23. nóvember 2011 og þá var sumaráætlun flugfélagsins kynnt. Af því tilefni voru „10 fyrstu sætin á hvern áfangastað seld á sérstöku kynningarverði, 9.900 kr. með sköttum.“ Síðar lækkaði tilboðsverðið hjá WOW, áfangastöðunum fjölgaði og farþegafjöldinn margfaldaðist.

Þau miklu umsvif hafa haft mikil áhrif á íslenska ferðaþjónustu og eftir tíðindi dagsins segist Baldur Oddur hafa áhyggjur af stöðu greinarinnar. „Þetta er mjög slæmt fyrir íslenskan ferðaþjónustu og hagkerfið allt.“