Stjórnvöld ekki skuldbundin til að koma farþegum heim

Farþegar sem hafa aðeins keypt flugmiða verða að koma sér heim fyrir eigin reikning ef flugfélag fer í þrot.

flugfarthegi
Mynd: Unsplash

Það má gera ráð fyrir að margir þeirra farþega WOW air, sem eru núna í útlöndum eða á leiðinni út næstu daga, velti fyrir sér hvernig þeir komist heim ef rekstur félagsins stöðvast áður en komið er að heimferð. Almenna reglan er sú að þeir sem eru í alferð, á vegum ferðaskrifstofu, komast heim á kostnað söluaðilans en farþegar sem aðeins keyptu flugmiða, t.d af flugfélaginu sjálfu, verða að koma sér heim fyrir eigin reikning.

Þeir geta svo í framhaldinu gert kröfu í þrotabú flugfélagsins samkvæmt því sem fram kemur á vef Samgöngustofu. Þar stendur ekki neitt um að stjórnvöld séu skuldbundin til að koma þeim Íslendingum heim sem eru erlendis á vegum WOW air eins og Jón Karl Ólason, fyrrverandi forstjóri Icelandair Group, hélt fram í fréttum Rúv í gær.

Samkvæmt upplýsingum frá Samgöngustofu þá væri slík aðgerð, ef til kæmi, sérstök ákvörðun stjórnvalda.