Svafa í stjórn Icelandair Group

Svafa Grönfeldt kemur ný inn í stjórn Icelandair Group. Þeir fjórir stjórnarmenn sem sóttust eftir endurkjöri fengu allir kosningu.

Mynd: Icelandair

Það var ljóst að alla vega einn nýr einstaklingur tæki sæti í stjórn Icelandair Group á aðalfundi fyrirtækisins sem fram fór í dag. Ásthildur Otharsdóttir, sem setið hefur í stjórninni um árabil, leitaði nefnilega ekki eftir endurkjöri en það gerðu hins vegar Heiðrún Jónsdóttir, Guðmundur Hafsteinsson, Ómar Benediktsson og Úlfar Steindórsson. Auk þeirra buðu þær Guðný Hansdóttir, Svafa Grönfeldt og Þórunn Reynisdóttir sig fram. Niðurstaða atkvæðagreiðslu var sú að núverandi stjórnarmenn náðu allir endurkjöri og Svafa fékk flest atkvæði þeirra sem sóttust eftir fimmta sætinu.

Svafa Grönfeldt er formaður stjórnar MIT DesignX sem er nýjasti viðskiptahraðall MIT háskóla í Boston og starfar hún jafnframt við nýsköpunarsetur skólans. Hún er ein af stofnendum The MET Fund sem er fjárfestingasjóður fyrir sprotafyrirtæki á sviði hönnunar og tækni í Bandaríkjunum. Svafa hefur setið í stjórn Össurar síðan 2008. Hún starfaði áður sem framkvæmdastjóri hjá Alvogen og þar áður sem rektor Háskólans í Reykjavík og aðstoðarforstjóri Actavis. Hún hefur lokið doktorsprófi frá London School of Economics í vinnumarkaðsfræðum.

Í tilkynningu frá Icelandair Group kemur fram að ný stjórn hafi haldið sinn fyrsta fund og skipt með sér verkum. Úlfar Steindórsson verður áfram formaður stjórnar og Ómar Benediktsson varaformaður.