Tap WOW marg­fald­aðist

Viðsnúningurinn sem átti að verða á rekstri WOW air í fyrra skilaði sér ekki og félagið var rekið með miklu tapi.

wow radir
Lágu fargjöldin hjá WOW stóðu ekki undir rekstri félagsins í fyrra. Mynd: WOW

Það var fyrst í júlí í fyrra sem WOW air birti afkomu sína fyrir árið 2017 og í ljós kom að félagið tapaði 2,3 millj­örðum króna. Árin tvö þar á undan var rekst­urinn réttum megin við núllið. Nokkrum vikum eftir að afkoman 2017 var opin­beruð hófst margum­rætt skulda­bréfa­útboð WOW og í gögnum sem því fylgdi sagði að taprekst­urinn hefði haldið áfram á fyrri helm­ingi ársins 2018.

Aukin áhersla á sölu farmiða á dýrara farrými og hærri tekjur af auka­þjón­ustum áttu hins vegar að snúa rekstr­inum við og hagn­aður yrði á seinni hluta síðasta árs. Þó var gert ráð fyrir tapi fyrir allt árið 2018 en methagnaði á þessu ári.

Það varð þó ljóst þegar WOW birti uppgjör sitt fyrir fyrstu níu mánuðina í fyrra að viðsnún­ing­urinn hafði ekki orðið því flug­fé­lagið var rekið með um fjög­urra millj­arða króna tapi. Og ekki tók betra við síðustu þrjá mánuði ársins því samkvæmt heim­ildum Túrista þá nam heild­artap WOW air á síðasta ári rétt um 20 millj­örðum króna. Til saman­burðar var tap af rekstri Icelandair Group 6,7 millj­arðar kr.

Sem fyrr segir er afkoman í fyrra langtum verri en forsvars­fólk WOW air kynnti í tengslum við skulda­bréfa­útboð félagsins. Og við því var búist því í bréfi til eigenda skulda­bréf­anna, sem Skúli sendi í lok nóvember,  þá segir hann að afkoman á fjórða ársfjórð­ungi hafi verið mun verri en gert hafi verið ráð fyrir. Ástæð­urnar lágu í hækk­andi olíu­verði, gjald­þroti Primera Air og neikvæðri umræðu um félagið að mati forstjórans.

Eins og áður hefur komið fram þá samþykkti stjórn Icelandair Group að hefja viðræður við WOW air um aðkomu að rekstri félagsins í gærkvöld. Reiknað er með að niður­staða liggi fyrir í síðasta lagi á mánudag.