TF-NEO á leið í viðhald

Það hefur verið fylgst með ferðum Airbus þotu WOW air af miklu áhuga á tölvuskjám í íslenskum verðbréfafyrirtækjum í morgun.

wowair freyja
Mynd: WOW air

Fyrir rúmum tveimur tímum síðan tók á loft frá Keflavíkurflugvelli Airbus þotan TF-NEO sem WOW air hefur haft til afnota í nærri tvö ár. Flugferðin er ekki hluti af hefðbundnu áætlunarflugi WOW air og inn á vefsíðunni Flightradar, þar sem hægt er að fylgjast með flugumferð í rauntíma, kemur ekki fram hvert ferð þotunnar er heitið.

Heimildir Túrista herma að innan fjármálageirans hafi fréttir af þessari flugferð vakið mikla athygli hjá og ófáir talið að þarna væri WOW að skila flugvél til leigusala. En TF-NEO hefur síðustu daga verið kyrr á Keflavíkurflugvelli á meðan aðrar þotur WOW fljúga til Evrópu líkt og Túristi greindi frá í gær.

Skýringin á brottför þotunnar á sér þó aðrar ástæður því samkvæmt Svanhvíti Friðriksdóttur, upplýsingafulltrúa WOW, þá er þotan einfaldlega á leið í reglubundið viðhald til Evrópu. Hún snýr aftur hingað til lands eftir tíu daga og verður aftur nýtt í áætlunarflug á vegum WOW þann 1. apríl.