Þangað verður flogið beint í sumar

Þeim fækkar áfangastöðunum sem flogið verður til í sumar og engin nýr bætist við en úrvalið er hins vegar mikið.

skerjagardurinn Henrik Trygg
Svíi kælir sig í skerjagarðinum við Stokkhólm. Mynd: Henrik Trygg / Ferðamálaráð Stokkhólms

Sumaráætlun flugfélaganna nær frá lokum þessa mánaðar og fram í enda október. Að þessu sinni verða farnar reglulegar ferðir til sjötíu áfangastað í Evrópu og Norður-Ameríku. Þetta er þónokkuð minna framboð en í fyrra þegar flogið var beint til ríflega áttatíu erlendra borga og bæja frá Keflavíkurflugvelli en líka Reykjavík og Akureyri. Frá þeim tveim síðarnefndu takmarkast áætlunarflugið við Grænland.

Síðustu ár hefur úrval áfangastaða aukist ár frá ári en að þessu sinni er enginn nýr valkostur í boði. Og sem fyrr segir þá fækkar stöðunum og farþegar á Keflavíkurflugvelli geta í sumar ekki flogið beint til bresku borganna Aberdeen, Belfast og Bristol. Bandarísku borgirnar Los Angeles, St Louis, Cincinnati og Pittsburgh detta út og eins fækkar þýsku áfangastöðunum um þrjá og ekki verður flogið reglulega til Gautaborgar, Trieste eða Mallorca í sumar.