Tjón Netgíró vegna WOW verður óverulegt

Til að fá lægsta verðið hjá WOW air þurfti að borga með Netgíró. Framkvæmdastjóri þess segir að fyrirtækið hafi verið vel undirbúið fyrir stöðuna sem nú er uppi.

Mynd: Netgíró

„Þó nokkur fjöldi hefur leitað til Netgíró vegna málsins og höfum við sett upp sérstaka síðu þar sem mál sem tengjast WOW Air eru skráð,“ segir Helgi Björn Kristinsson, framkvæmdastjóri Netgíró. Fyrirtækið tók við greiðslum frá farþegum WOW air og þeir sem nýttu sér þá leið komust hjá 999 kr. bókunargjaldi WOW air. Hjá flugfélaginu var nefnilega ekki hægt að bóka farmiða á því verði sem auglýst var.

Að sögn Helga tekur nú við að vinna í úrlausn þessara mála og segir hann ljóst að niðurstaða um fjölda og umfang liggi ekki fyrir á næstunni. „Netgíró hefur um nokkurt skeið unnið að undirbúningi þess að staða sem þessi kæmi upp og var fyrirtækið því vel undirbúið að öllu leyti.“ Aðspurður um tjón Netgíró vegna gjaldþrots WOW air þá segir Helgi að það verði óverulegt.

Forsvarsmenn Netgíró voru þó ekki vissir um rétt viðskiptavina sinna síðastliðið sumar. Þá óskaði Túristi eftir upplýsingum um hvort þeir farþegar WOW, sem greitt höfðu með Netgíró, ættu rétt á endurgreiðslu ef rekstur flugfélagsins myndi stöðvast áður en ferð hæfist. Þessi réttur er skýr í tilfelli þeirra sem greiða með greiðslukortum. Í framhaldinu af umfjöllun Túrista þá leituðu stjórnendur Netgíró lögfræðiálits og niðurstaðan var sú að endurgreiðsla væri trygg.