Tyrklandsferðir á ný

Stærstu ferðaskrifstofur landsins sameinast um reglulegar sólarlandaferðir til vesturhluta Tyrklands í sumar.

Frá tyrkneskri sólarströnd. Mynd: Nihat Sinan Erul / Unsplash

Ferðaþjónustan í Tyrklandi er að rétta úr kútnum eftir nokkur mögur ár sem einkenndust af pólitískum óróa sem fældi ferðafólk frá. Stríðið í nágrannalandinu Sýrlandi hafði líka sín áhrif. Þjóðverjar, Bretar og Skandinavar eru hins vegar farnir að fjölmenna á ný á tyrkneskar sólarstrendur og  í sumar munu ferðaskrifstofurnar Heimsferðir, Úrval-Útsýn og Vita sameinast um sæti í farþegaþotu sem flýgur til héðan reglulega til Bodrum, á suðvesturströnd Tyrklands, í sumar.

Þar með taka ferðaskrifstofurnar þrjár upp þráðinn frá sumrinu 2014 þegar þær höfðu sama háttinn á. Þá áttu þær hins vegar í samkeppni við norrænu ferðaskrifstofuna Nazar sem flaug sínum íslensku farþegum beint til Antalya. Nazar lagði niður starfsemi sína hér árið 2017 en forsvarsmenn hennar stefna á endurkomu næsta sumar.

Verðlagið á Tyrklandi er ein ástæða vinsælda landsins meðal sólþyrstra Norður-Evrópúbúa og eins hafa tyrkneskir hótelstjórar verið í fararbroddi þegar kemur að gististöðum þar sem allt fæði er innifalið. Grikkir hafa til að mynda lagt mun minni áherslu á þess háttar þjónustu. Ferðir íslensku ferðaskrifstofanna til Tyrklands í sumar eru allar 11 daga langar.

Það tekur um sex klukkutíma að fljúga héðan til Bodrum og brottför frá Keflavíkurflugvelli verður í morgunsárið og lent er seinnipart dags í Tyrklandi. Þaðan er flogði að kveldi og lent um miðnætti við Leifsstöð enda er þriggja klukkustunda tímamismunur á Tyrklandi og Íslandi.