Verðlauna vef Isavia

Sameiginleg heimasíða Isavia og allra flugvalla landsins hlaut tvær viðurkenningar á verðlaunahátið Samtaka vefiðnaðarins.

Forsíða vefsíðu Isavia. Skjámynd Isavia

Nýr vefur Isavia var kynntur og tekinn í notkun á aðalfundi fyrirtækisins síðastliðið vor. Sá hefur að geyma alla upplýsingagjöf um flugvelli Isavia og flugleiðsögu og eins geta farþegar fundið þar upplýsingar um flug og annað sem tengist undirbúningi ferðalags, bæði innanlands og erlendis. Á vefnum er einnig að finna upplýsingaveitu til flugfólks, rekstraraðila og stjórnsýslu.

Á nýyfirstaðinni verðlaunahátíð Samtaka vefiðnaðarins (SVEF) var þessi nýja vefsíða valin sú besta í flokki stórra fyrirtækja 2018 og hlaut einnig viðurkenningu Blindrafélagsins og Siteimprove sem aðgengilegasti vefurinn. „Það er sérstaklega ánægjulegt að hafa unnið til aðgengisverðlauna en mikil vinna hefur verið lögð í að fara eftir öllum aðgengisstöðlum svo hinir ýmsu hópar með skerðingar geti hæglega notað vefinn,“ segir í frétt á heimasíðu Isavia.

Þar segir jafnframt að mikið hafi verið lagt upp úr nýjum lausnum fyrir farþega á vefnum, enda yfirlýst markmið Isavia að vera hluti af góðu ferðalagi. „Sem dæmi má nefna hefur notkun á þeirri þjónustu að fá upplýsingar um flug í gegnum Messenger verið afskaplega vel tekið og hún notuð í miklum mæli.“