Viðskiptakröfur Isavia hækkuðu um rúma 2 milljarða

Vanskil viðskiptavina Isavia jukust umtalsvert í fyrra.

Mynd: Isavia

„Samkeppnisaðilar hafa fengið að safna upp skuldum á Keflavíkurflugvelli sem skekkir verulega samkeppnisstöðu á markaði,” sagði Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, aðalfundi flugfélagsins í byrjun mánaðar. Fór ekki á milli mála að þar var forstjórinn að vísa til ógreiddra notendagjalda WOW air á Keflavíkurflugvelli.

Stjórnendur Isavia vildu ekki tjá sig um gagnrýni Boga þegar eftir því var leitað en Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia, kom hins vegar inn á þetta mál í ræðu sinni á aðalfundi Isavia í dag. Sagði hann að Isavia stæði við bakið á viðskiptavinum sínum með hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi.

Og það sést á ársreikningi Isavia að fyrirtækið þurfti að sýna viðskiptavinum sínum biðlund í fyrra því að viðskiptakröfur þess hækkuðu verulega. Fóru þær úr tæpum þremur milljörðum í rétt rúma fimm. Nam hækkunin nærri 2,1 milljarði króna á milli áranna 2017 og 2018. Hagnaður Isavia í fyrra nam samtals 4,2 milljörðum kr. sem er aukning um 8 prósent frá fyrra ári.

Fréttablaðið sagði frá því í gær að samkomulag væri milli Isavia og WOW air um að flugfélagið væri alltaf með eina flugvél á Keflavíkurflugvelli sem eins konar tryggingu fyrir ógreiddum reikningum félagsins. Allar þotur WOW air eru hins vegar á leigu líkt og Túristi benti á í gær. Hvorki Isavia né WOW air hafa borið frétt Fréttablaðsins tilbaka.