Vilja stjórnarmann með reynslu af flugrekstri

Í fyrsta sinn í sögu SAS flugfélagsins verður stjórn þess ekki aðeins skipuð Norðurlandabúum. Fyrrum forstjóri Austrian Airlines tekur nefnilega þar sæti í næstu viku.

Mynd: SAS

Rekstur skandinavíska flugfélagsins SAS hefur batnað verulega frá því að félagið þurfti að leita samninga við starfsfólk um skert kjör í árslok 2012. Á síðasta rekstrarári skilað skandinavíska flugfélagið methagnaði og nýttu norsk yfirvöld þennan nýja meðbyr til að selja sinn hlut í flugfélaginu. Þar með lauk áratuga langri samvinnu skandinavískra stjórnvalda í flugrekstri.

Danir og Svíar halda þó ennþá sínum hlutum en aukið vægi einkafjárfesta kallar hins vegar á breytingar í stjórn SAS sem hingað til hefur aðeins verið skipuð Norðurlandabúum. Á aðalfundi flugfélagsins, sem haldinn verður í næstu viku, er ætlunin að Þjóðverjinn Kay Kratky taki sæti í stjórninni. Kratky þessi er fyrrum forstjóri Austrian Airlines, dótturfélags Lufthansa Group, og í frétt danska flugritsins Checkin segir að tilgangurinn með tilnefningu hans sé að fá inn stjórnarmann með beina reynslu af flugrekstri.

Þess má geta að seinnipartinn í dag fer fram aðalfundur Icelandair Group og þar verður ný fimm manna stjórn fyrirtækisins kosin. Sjö Íslendingar eru í framboði en enginn þeirra státar af álíka reynslu af rekstri áætlunarflugfélags og fyrrnefndur Kratky.