WOW áfram á eigin fótum

Viðræður WOW og Indigo Partners gætu staðið yfir fram í lok næsta mánaðar. Það stefnir því í fimmtu mánaðamótin sem WOW fer í gegnum eftir að kaupum Icelandair á félaginu var rift.

Mynd: London Stansted

Þegar 111 starfsmönnum WOW air og tvö hundruð verktökum var sagt upp störfum um miðjan desember þá sagði Skúli Mogensen að félagið gæti staðið á eigin fótum næstu mánuði. Þá var að fara í hönd erfiðasti tími ársins í flugrekstri líkt og WOW air staðfesti í bréfi til skuldabréfaeigenda um þarsíðustu helgi. Þar sagði að fyrsti fjórðungur ársins væri sá þyngsti og að lausafjárstaða félagsins hefði versnað undanfarið. Til marks um það þá hefur WOW ekki haft bolmagn í að gera upp lífeyrissjóðsgreiðslur starfsmanna.

Og nú styttist í fimmtu mánaðamótin sem WOW þarf að fara í gegnum eftir að Icelandair rifti kaupsamningi sínum í lok nóvember. Það stendur nefnilega ekki lengur til að klára viðræðurnar um fjárfestingu Indigo Partners í WOW í lok þess mánaðar eins og áður hafði verið gefið út. Viðsemjendur ætla að gefa sér tíma til 29. apríl og það eru því allar líkur á að WOW air fái ekki inn aukið fé til rekstursins fyrir næstkomandi mánaðamót.

Viðræðurnar hafa nú staðið yfir í nærri fjóra mánuði og á þeim tíma hefur WOW komið eignum í verð. Fyrst voru lendingaleyfi á Gatwick flugvelli seldi til easyJet og Wizz Air en það síðarnefnda er að stórum hluta í eigu Indigo Partners. Auk þess voru fjórar þotur seldar til Air Canada en þetta voru einu flugvélarnar í flota WOW sem voru í eigu félagsins sjálfs. Átti þessi sölusamingur að skila flugfélaginu um 1,2 milljarði króna í lausafé. Í dag eru engar álíka verðmætar eignir eftir í fyrirtækinu og eins og segir í bréfi til skuldabréfaeigenda þá er lausafjárstaðan ekki góð.

Orðrómur er á kreiki að Indigo Partners hafi hætt samningaviðræðum við Skúla Mogensen í dag. Blaðafulltrúi Indigo Partners, segir í svari til Túrista nú í kvöld, að fyrirtækið neiti að tjá sig um málið. Í svari Svanhvítar Friðriksdóttur, upplýsingafulltrúa WOW air, segir að þar sem skuldabréf fyrirtækisins eru skráð í sænsku kauphöllinni þá geti þau ekki tjáð sig á meðan ferlinu stendur.