WOW áfram á eigin fótum

Viðræður WOW og Indigo Partners gætu staðið yfir fram í lok næsta mánaðar. Það stefnir því í fimmtu mánaðamótin sem WOW fer í gegnum eftir að kaupum Icelandair á félaginu var rift.

Mynd: London Stansted

Þegar 111 starfs­mönnum WOW air og tvö hundruð verk­tökum var sagt upp störfum um miðjan desember þá sagði Skúli Mogensen að félagið gæti staðið á eigin fótum næstu mánuði. Þá var að fara í hönd erfið­asti tími ársins í flugrekstri líkt og WOW air stað­festi í bréfi til skulda­bréfa­eig­enda um þarsíð­ustu helgi. Þar sagði að fyrsti fjórð­ungur ársins væri sá þyngsti og að lausa­fjárstaða félagsins hefði versnað undan­farið. Til marks um það þá hefur WOW ekki haft bolmagn í að gera upp lífeyr­is­sjóðs­greiðslur starfs­manna.

Og nú styttist í fimmtu mánaða­mótin sem WOW þarf að fara í gegnum eftir að Icelandair rifti kaup­samn­ingi sínum í lok nóvember. Það stendur nefni­lega ekki lengur til að klára viðræð­urnar um fjár­fest­ingu Indigo Partners í WOW í lok þess mánaðar eins og áður hafði verið gefið út. Viðsemj­endur ætla að gefa sér tíma til 29. apríl og það eru því allar líkur á að WOW air fái ekki inn aukið fé til rekst­ursins fyrir næst­kom­andi mánaðamót.

Viðræð­urnar hafa nú staðið yfir í nærri fjóra mánuði og á þeim tíma hefur WOW komið eignum í verð. Fyrst voru lend­inga­leyfi á Gatwick flug­velli seldi til easyJet og Wizz Air en það síðar­nefnda er að stórum hluta í eigu Indigo Partners. Auk þess voru fjórar þotur seldar til Air Canada en þetta voru einu flug­vél­arnar í flota WOW sem voru í eigu félagsins sjálfs. Átti þessi sölu­sam­ingur að skila flug­fé­laginu um 1,2 millj­arði króna í lausafé. Í dag eru engar álíka verð­mætar eignir eftir í fyrir­tækinu og eins og segir í bréfi til skulda­bréfa­eig­enda þá er lausa­fjárstaðan ekki góð.

Orðrómur er á kreiki að Indigo Partners hafi hætt samn­inga­við­ræðum við Skúla Mogensen í dag. Blaða­full­trúi Indigo Partners, segir í svari til Túrista nú í kvöld, að fyrir­tækið neiti að tjá sig um málið. Í svari Svan­hvítar Frið­riks­dóttur, upplýs­inga­full­trúa WOW air, segir að þar sem skulda­bréf fyrir­tæk­isins eru skráð í sænsku kaup­höll­inni þá geti þau ekki tjáð sig á meðan ferlinu stendur.