WOW skyndi­lega álit­legri kostur fyrir Icelandair

Kyrrsetning Boeing MAX þota um heim allan hefur veikt stöðu Icelandair og jafnvel hækkað virði WOW air þar sem félagið notast við Airbus flugvélar.

icelandair wow
Samningsstaða WOW gæti hafa batnað vegna Airbus-flotans. Myndir: Icelandair og WOW

Kauptil­boði Icelandair í WOW air var rift 29. nóvember þar sem ólík­legt var talið að þeir fyrir­varar sem kaup­andinn gerði yrðu uppfylltir. Síðar sama dag hóf Skúli Mogensen, eini eigandi WOW, form­legar viðræður við banda­ríska auðkýf­inginn William Franke, stjórn­anda Indigo Partners. Rúmum ársfjórð­ungi síðar eru þeir Skúli og Franke ennþá að reyna að ná saman um hver aðkoma banda­ríska fjár­fest­inga­fyr­ir­tæk­isins að WOW eigi að vera og ætla að gefa sér tíma út apríl til að finna lausn á því.

Það stefnir hins vegar í að hlutur Skúla í WOW verði lítill eða jafnvel enginn samkvæmt því sem fram kemur í nýju tilboði til skulda­bréfa­eig­enda þar sem óskað er eftir því að þeir afskrifi kröfur sínar á WOW um helming. Þessi slæma samn­ings­staða Skúla skýrir þá afhverju hann leitaði aftur til Icelandair um síðustu mánaðamót jafnvel þó hann hefði sjálfur lýst því yfir, stuttu eftir að Icelandair féll frá kaup­unum á WOW, að hann væri mjög ánægður með þá niður­stöðu því hann teldi „Indigo vera frábæran partner.”

Skúli virðist því vera í nærri vonlausri stöðu en gæti sloppið úr WOW ævin­týrinu með einhverri reisn ef félagið fer ekki á hausinn. Hann fær þó ekki fjár­fest­ingu sína í WOW tilbaka nema endur­reisn flug­fé­lagsins, undir stjórn Franke, verði það vel lukkuð að það nái að gera Kefla­vík­ur­flug­völl að miðstöð fyrir “últra-lággjalda­flug” milli Evrópu og Norður-Ameríku. Flug­félög sem gera út á þann markað og eru rekin með hagnaði gera vana­lega ekki út frá löndum þar sem laun eru almennt há og réttur launa­fólks mikill. Fram­tíð­arsýn Franke fyrir WOW gæti því verið önnur en núver­andi rekstr­armódel flug­fé­lagsins er. Og það má leiða að því líkum að Icelandair færi illa út úr samkeppni frá lággjalda­flug­fé­lagi sem gerði út á erlendar áhafnir.

Franke hefur líka sýnt að hann er ekki aðeins harður í samn­inga­við­ræðum við menn eins og Skúla heldur líka almennt starfs­fólk. Flugliðar banda­ríska flug­fé­lagsins Frontier, sem Indigo Partners á, eru til að mynda ekki sáttir við að farþeg­arnir séu beðnir um þjórfé og það tók flug­menn félagsins þrjú ár að endur­semja um betri kjör en þeir höfðu þá verið á nokkru lægri launum en þekkist hjá stórum flug­fé­lög­unum vest­an­hafs.

Og ennþá hefur Indigo Partners ekki lagt WOW air til neitt fé þó fyrir­tækið hafi reyndar keypt lend­inga­leyfi þess á Gatwick flug­velli í London. Í fram­haldinu seldi WOW þær fjórar flug­vélar sem félagið átti eftir og losaði þá um fé en engu að síður gat fyrir­tækið ekki staðið skil á lífeyr­is­greiðslum starfs­manna um síðustu mánaðamót. Það er klár vísbending um að skuld­irnar hafi haldið áfram að hrannast upp að undan­förnu. Einnig á Kefla­vík­ur­flug­velli eins og skilja mátti af orðum forstjóra Icelandair Group í síðastu viku. Niður­fell­ingar á flug­ferðum og miklar breyt­ingar á leiða­kerfi hafa líka skaðað vörumerki WOW.

Stór­skuldugt og nærri eigna­laust flug­félag er því ekki fýsi­legur fjár­fest­inga­kostur eins og endur­speglast í kröfu Indigo Partners um helm­ings afskriftir skulda­bréfa­eig­enda og smán­ar­legan hlut fyrir Skúla. Það er því ekki að undra að forsvars­fólk Icelandair hafi tekið fálega tilboði forsvars­fólks WOW um nýjar samn­inga­við­ræður um síðustu mánaðamót.

Síðan þá hefur staða Icelandair hins vegar veikst vegna kyrr­setn­ingar á Boeing MAX þotum félagsins. Stjórn­endur þess sjá nú fram á að þurfa að gera breyt­ingar á leiða­kerfi  sínu og  jafnvel skera niður sumaráætl­unina. Forstjórinn segir það til skoð­unar að leigja flug­vélar til að stoppa upp í götin sem MAX þoturnar skilja eftir sig en leiða­kerfi Icelandair, frá og með vorinu, byggir á flug­flota sem saman­stendur af níu MAX þotum.

Stjórn­endur fleiri flug­fé­laga standa frammi fyrir álíka vanda en framboð á leigu­vélum, sem geta komið í stað Boeing MAX, er þó miklu minna en sem nemur öllum þeim þotum sem voru kyrr­settar. Verð­mæti leigu­samn­inga WOW air á Airbus þotum gæti þar með hafa hækkað umtals­vert síðustu sólar­hringa og þá sérstak­lega í augum forsvars­fólks Icelandair. Það flug­félag gerir vissu­lega út á Boeing þotur og bland­aður flug­floti er ekki fyrsti kostur. Hann er þó kannski skárri valkostur en að þurfa að skera niður sumaráætl­unina vegna flug­véla­skorts.

Flækjan sem bland­aður flug­floti veldur er líka eitt­hvað sem stjórn­endur Icelandair hafa vegið og metið, bæði þegar þeir keyptu WOW í nóvember og eins þegar þeir  gáfu út að framundan væru viðræður við bæði Boeing og Airbus um kaup á flug­vélum. Í ljósi vand­ræð­anna með MAX þoturnar þá gæti samstarf við franska flug­véla­fram­leið­andann verið meira lokk­andi í dag en það hefur hingað til verið. Og þá gæti verið akkur í því fyrir Icelandair að taka yfir samn­inga flug­manna WOW air sem þekkja frönsku flug­vél­arnar inn og út.

Í ljósi alls þessa má velta því fyrir sér hvort núna sér tíma­punkt­urinn fyrir Icelandair að taka yfir WOW air. Skulda­bréfa­eig­endur virðast tilbúnir í að taka á sig miklar afskriftir, samn­ings­staða Skúla hefur versnað enn frekar og mögu­lega er komin lausn á óhag­stæðum leigu­samn­ingum WOW á Airbus breið­þotum sem ekki er lengur not fyrir.

Skuldastaða WOW air er þó vænt­an­lega ennþá verri en framhjá því verður ekki horft að einn stærsti kröfu­hafinn, jafnvel sá stærsti, er íslenska ríkið í gegnum eign sína í Isavia. Ógreidd lend­inga- og farþega­gjöld WOW á Kefla­vík­ur­flug­velli gætu nefni­lega numið umtals­verðum upphæðum eins og forstjóri Icelandair viðraði í ræðu sinni í síðustu viku. Með eftir­gjöf á þeirri skuld gæti ríkið komið í veg fyrir þann álits­hnekki sem fall WOW myndi valda eða staðið vörð um að flugrekstur hér landi byggðist á íslenskum áhöfnum sem vinna samkvæmt íslenskri vinnu­lög­gjöf. Enginn veit nefni­lega á hvaða forsendum fram­tíð­arsýn Indigo Partners fyrir WOW air byggir eins og áður er rakið.

Að lokum verður ekki framhjá því horft að leiða­kerfi flug­fé­lag­anna Icelandair og WOW air eru keimlík. Borg­irnar Barcelona, Lyon, Detroit og Tel Aviv eru þær einu í sumaráætlun WOW air sem Icelandair er ekki með í sínu kerfi. Flug­fé­lögin er því í samkeppni á fjölda mörgum flug­leiðum og það hefur vissu­lega skilað sér í lægri fargjöldum. En um leið miklum taprekstri beggja félaga og sú stað­reynd er vísbending um að Ísland er of lítill mark­aður fyrir tvö stórtæk alþjóða­flug­félög. Það er því kannski tíma­bært að leggja á hilluna drauma um að gera Ísland að Dubaí norð­ursins og reisa hér flug­höfn sem anna á miklu fleiri farþegum en fara í gegnum Leifs­stöð í dag.