10 þúsund færri farþegar um innanlandsflugvellina

Þeim fækkaði um fimmtán prósent sem nýttu flugið innanlands. Páskaumferðin í fyrra hefur áhrif á samanburðinn.

Dornier flugvél Flugfélagsins Ernis Mynd: Flugfélagið Ernir

Rétt um 57 þúsund farþegar fóru um innanlandsflugvelli landsins í mars en þeir voru rúmlega 67 þúsund á sama tíma í fyrra. Hlutfallslega nemur samdrátturinn fimmtán af hundraði og skrifast þetta mikla fall líklega að hluta til á tímasetningu páska í fyrra. Þá var páskadagur þann 1. apríl og því fór hluti af páskaumferðinni fram í mars. Í ár telst hún hins vegar til aprílmánaðar.

Það verður þó ekki horft framhjá því að síðustu mánuði hefur farþegum í innanlandsfluginu farið fækkandi og í fyrra nam samdrátturinn fimm af hundraði. Það sem af er þessu ári nemur hann 9,7 prósentum en sem fyrr segir þá skýra páskarnir í fyrra hluta af þessari neikvæðu þróun. Þess ber að geta að farþegar sem flugu til Bretlands frá Akureyri og Grænlands frá Reykjavík eru meðtaldir í þessari samantekt Isavia.