Áfangastaðir sumarsins eftir brotthvarf WOW air

Með falli WOW air duttu nokkrir af áfangastöðum sumarsins út af sumardagskrá Keflavíkurflugvallar. Hér eru þeir sem eftir standa.

Myndir: Unsplash

Heiti borganna Lyon, Detriot, Tel Aviv munu ólíklega birtast á upplýsingaskjáum í Leifsstöð í sumar því WOW air var eitt um flugið til þessara borga. Og nokkrum dögum áður en rekstur WOW stöðvaðist þá felldi Icelandair niður flugið til Halifax og Cleveland. Þar með hefur leiðakerfi Keflavíkurflugvallar dregist saman um fimm áfangastaði á stuttum tíma.

Samdrátturinn er reyndar nokkru meiri þegar borið er saman við úrvalið síðasta sumar. Núna er verður ekkert áætlunarflug til Los Angeles, St Louis, Cincinnati og Pittsburgh í Bandaríkjunum og heldur ekki til bresku borganna Aberdeen, Belfast og Bristol. Með falli Germania datt svo út flug til þýsku borganna Dresden, Bremen og Friedrichshafen og í sumar munu þotur Icelandair ekki fljúga reglulega til Gautaborgar. Gjaldþrot Primera air varð svo til þess að Heimsferðir bjóða ekki upp á ferðir til Trieste á Ítalíu og stærstu ferðaskrifstofur landsins ætla ekki að sameinast um flug til sólareyjunnar Mallorca.

Enginn nýr áfangastaður bætist við í sumar á Keflavíkurflugvelli en í haust hefur Wizz air reyndar flug þaðan til Kráká í Póllandi. Íbúar fyrir norðan munu hins vegar geta flogið beint frá Akureyri til Rotterdam með Transavia. Það félag ætlar líka að fljúga beint frá Amsterdam til Íslands en félagið hefur lengi haldið úti sumarflugi hingað frá París.