Arctic Adventures verðlaunað fyrir markaðsstarf

Fyrir fimm árum síðan var innan við fimmtungur bókana hjá Arctic Adventures á netinu en nú er hlutfallið komið upp í 65 prósent.

Mynd: Arctic Adventures

Markaðsstarf íslenska ferðaþjónustufyrirtækisins Arctic Adventures var verðlaunað á bresku verðlaunahátíðinni The Drum Search Awards sem fram fór í London í gær. Í tilkynningu kemur fram að um sé að ræða ein virtustu verðlaun sem veitt eru fyrir stafræna markaðssetningu og hlaut írska markaðsstofan Wolfgang Digital verðlaun í flokknum „Most effective use of content“ fyrir vinnu sína í efnismarkaðssetningu á vef Arctic Adventures.

„Arctic Adventures hefur á undanförnum árum lagt mikla áherslu á stafræna markaðssetningu og er svo komið að í dag fer u.þ.b. 65 prósent af allri sölu fyrirtækisins fram á netinu, samanborið við 18 prósent árið 2014. Samstarfið við Wolfgang Digital hefur verið mikilvægt í þessari þróun ásamt uppbyggingu á eigin markaðs- og vefsöludeild,“ segir í tilkynningu. Í vefdeild Arctic Adventures hér á landi starfa sex manns við stafræna markaðssetningu, t.d. efnisskrif, leitarvélabestun og auglýsingabirtingar.

Í byrjun árs var tilkynnt að Arctic Adventures og Icelandic Tourism Fund hefðu gert samkomulag um sameiningu Into the Glacier ehf. og Arctic Adventures. Samanlögð velta fyrirtækjanna árið 2018 var tæplega 7 milljarðar króna og hjá þeim starfa um þrjú hundruð manns.