Icelandair í safn flugfélaga

Nýr hluthafi í Icelandair Group á jafnframt hlut í nokkrum af stærstu flugfélögum Bandaríkjanna.

Bandarísku flugfélögin United Airlines, Delta, Alaska Air, Southwest Airlines, Allegiant og JetBlue eru meðal þeirra fyrirtækja sem fjárfestingasjóðurinn PAR Capital Management á hlut í samkvæmt heimasíðu Nasdaq. Nú bætist Icelandair við þennan hóp því í morgun var tilkynnt að náðst hefði bindandi samkomulag um kaup PAR Capital Management á 11,5 prósenthlut í Icelandair Group. Kaupverðið er rúmir 5,6 milljarðar króna en viðskiptin eru háð samþykki hluthafafundar sem haldinn verður þann 24.apríl.

„PAR Capital Management er góð viðbót við sterkan hluthafahóp félagsins og er það mat okkar að aðkoma PAR Capital Management að hluthafahópnum verði verðmæt fyrir Icelandair Group. Það er ennfremur ánægjulegt að svo stór og öflugur fjárfestir deili trú okkar á framtíðarhorfur félagsins,” Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, í tilkynningu.

Auk eignahluta í flugfélögum þá á PAR Capital Management bréf í bókunarfyrirtækjum eins og Booking og Expedia.