Birta stundvísi flugfélaganna á Keflavíkurflugvelli

Á Mælaborði ferðaþjóustunnar má nú finna upplýsingar um hversu hátt hlutfall flugferða er á réttum tíma.

Nú má nálgast upplýsingar um stundvísi flugfélaganna á Keflavíkurflugvelli á Mælaborði ferðaþjónustunnar. Mynd: Isavia

Á heimasíðu Óslóarflugvallar eru daglega uppfærðar upplýsingar um hversu oft flugferðum þaðan seinkar. Auk þess birta SAS og Norwegian reglulega upplýsingar um hversu hátt hlutfall ferða hefur verið á áætlun. Stundvísi skiptir íslenska farþega ekki minna máli en Dani, Svía og Norðmenn en engu að síður hefur verið skortur á þessum gögnum hér á landi.

Nú er Ferðamálastofa hins vegar byrjuð að birta þessar tölur á Mælaborði ferðaþjónustunnar. Þar má sjá að rúmlega þrjár af hverjum fjórum ferðum fóru á réttum tíma frá Keflavíkurflugvelli í mars. Og í þeim mánuði fóru Airbus þotur WOW oftar í loftið samkvæmt áætlun en Boeing þotur Icelandair. Stundvísi umsvifamestu erlendu flugfélaganna, easyJet og Wizz air, var hins mun lakari en hægt er að skoða stundvísi allra flugfélaga á Keflavíkurflugvelli á Mælaborði ferðaþjónustunnar og ná tölurnar aftur til nóvember síðastliðins.