Boða aukið sólarflug

Með falli Primera Air og WOW air hefur framboð á flugi til spænskra sólarstaða takmarkast. Icelandair ætlar að herja á þennan markað af auknum krafti.

Frá sundlaugabakka á Tenerife. Mynd: Spain.info

Fjórum sinnum fleiri Íslendingar flugu til Kanarí eða Tenerife á fyrri helmingi síðasta ár en á sama tíma árið 2016 samkvæmt upplýsingum frá spænskum ferðamálayfirvöldum. Samtals voru íslensku túristarnir á eyjunum tveimur um 28 þúsund fyrstu sex mánuðina í fyrra og rekja má hluta af þessari miklu ferðagleði til stóraukins framboðs síðustu ár. Þotur WOW hafa flogið reglulega til Las Palmas og Tenerife og Primera air var einnig með áætlunarflug til eyjanna. Flug Icelandair þangað hefur takmarkast við leiguflug fyrir ferðaskrifstofur. Á því verður fljótlega breyting því félagið ætlar að hefja flug til Suður-Evrópu í flugvélum með aðeins eitt farrými.

„Mun fleiri sæti verða í þessum vélum en í núverandi vélum félagsins sem lækkar kostnað á hvert framboðið sæti og styrkir þ.a.l. samkeppnishæfni félagsins á þessum markaði. Þessar vélar henta betur í flug til áfangastaða sem eru ekki hluti af kjarnaleiðarkerfi Icelandair, t.d. Alicante og Tenerife, og skapa því tækifæri til frekari vaxtar. Gert er ráð fyrir að fyrstu vélarnar með þessari uppsetningu verði komnar í rekstur í byrjun árs 2020,“ segir í tilkynningu frá Icelandair.

Það er því útlit fyrir að það gat sem WOW skildi eftir sig á markaðnum fyrir sólarflug fyrir Íslendinga verði fljótlega fyllt en eins og áður hefur komið fram þá hafa Heimsferðir gengið frá samningi við Norwegian um flug til Kanarí og Tenerife í vetur. Heimsferðir eru í eigu Andra Más Ingólfssonar sem einnig átti Primera Air sem varð gjaldþrota síðastliðið haust.

Önnur umsvifamikil ferðaskrifstofa í sólarlandaferðum er Vita sem er dótturfélag Icelandair Group. Þar með stefnir í að umsvif Icelandair á markaðnum muni aukast ennþá meira á næstunni.

Ferðaskrifstofa Íslands, sem rekur meðal annars Úrval-Útsýn, heyrir ekki undir eitt ákveðið flugfélag. Sömu sögu er að segja af Gamanferðum í dag því WOW air átti 49 prósent hlut í ferðaskrifstofunni.