Eini einkarekni flugvöllurinn í Bandaríkjunum

Evrópsk lönd og sveitarfélög hafa minnkað umsvif sín í rekstri flugvalla. Staðan er allt önnur vestanhafs.

„Það hefur ekki verið til góðs að rekstur evrópskra flugvalla gangi út á að hámarka gróða fyrir lífeyrissjóði í Kaliforníu eða annars staðar út í heimi,” sagði Carsten Spohr, forstjóri Lufthansa Group, á fundi með blaðamönnum í fyrra þar sem eignarhald á evrópskum flughöfnum var til umræðu. Lagði Spohr til að yfirvöld í Evrópu fylgdu fordæmi Bandaríkjamanna og litu á flugið sem almannasamgöngur þar sem flugvellir eru reknir af hinu opinbera en ekki einkaaðilum. Máli sínu til stuðnings fullyrti Spohr að evrópskir flugvellir væru þeir dýrustu í heimi og skiluðum þar með miklum hagnaði.

Staðreyndin er nefnilega sú að í Bandaríkjunum eru áætlunarflugvellir í almennri eigu og heyra oftast undir sveitarfélög. Á þessu er þó ein undantekning og það er Branson flugvöllur í suðurhluta Missouri fylkis. Sá er eini einkarekni flugvöllurinn í Bandaríkjunum og þaðan fljúga aðeins tvö flugfélög, Frontier og Via air, til fjögurra áfangastaða. Bæði flugfélögin bættu Branson nýlega við leiðakerfi sitt en flugvöllurinn á sér þó tíu ára sögu.

Einkarekstur á evrópskum flugvöllum er orðinn nokkuð almennur og sautján prósent flugvalla innan Evrópusambandsins eru að öllu leyti í eigu einkafyrirtækja samkvæmt samantekt Airport Council International. Þau ESB-ríki sem hafa einkavætt flugvelli sína að öllu leyti eru Kýpur, Ungverjaland, Portúgal og Slóvenía en auk þess hafa Evrópulöndin Albanía, Makedónía, Moldova og Kosovo farið sömu leið.

Í Norður-Ameríku fer aðeins eitt prósent af öllu farþegaflugi um flugvelli í einkaeigu en þess ber þó geta að álmur á flugvöllum vestanhafs eru í sumum tilfellum í einkaeigu.