Ekki víst að Marriott Edition opni í ár

Stefnt er að því að taka hótelið við Hörpu í notkun undir lok þessa árs. Sú áætlun gæti breyst.

Hörpuhótelið, Marriott Edition, eins og það er kynnt á heimasíðu Carpenter & Company, eigenda byggingarinnar. SSKJÁMYND: CARPENTER & COMPANY

Á heimsíðu Marriott Edition segir að útibú hótelkeðjunnar í Reykjavík opni í ár. Það er þó ekki víst að það gangi upp og vígslu þessa fimm stjörnu hótels yrði þá seinkað fram á fyrsta fjórðung næsta árs. Þetta kemur fram í svari fyrirtækisins við fyrirspurn Túrista.

Upphaflega stóð til að taka á móti fyrstu gestunum á Edition hótelinu síðastliðið vor. Fjármögnun byggingarinnar tók hins vegar lengri tíma en ráð var fyrir gert og þar með seinkaði framkvæmdum. Kostnaðaráætlun verkefnisins hljómaði í fyrstu upp á 16 milljarða króna en ljóst er að verkefnið verður mun dýrara sem skýrist meðal annars af styrkingu krónunnar eins og kom fram í viðtali við forsvarsmenn byggingarinnar í Fréttablaðinu síðastliðið vor.

„Enginn í verkefninu er auralaus. Við verðum hins vegar að gaumgæfa fjárhagshliðina og taka skynsamlegar ákvarðanir en ég tel að verkefnið standi fjárhagslega betur en þegar við fórum af stað með það. Það mun kosta meira og verða meira virði. Verð á hótelherbergjum í Reykjavík hefur hækkað meira en sem nemur kostnaði á tímabilinu,“ sagði Richard L. Friedman, forstjóri og aðaleigandi, bandaríska fasteignaþróunarfélagsins Carpenter & Company sem á stærstan hlutinn í byggingunni.

Friedmann bætti því við að forsvarsmenn byggingarinnar myndu jafnframt eiga hótelið sjálft. „Við lítum svo á að hótelið sé í okkar eigu en sé stýrt af Marr­iott samkvæmt samningi næstu 30 árin. Hótelið greiðir okkur ekki fasta leigu heldur fær Marriott Edition hlutfall af tekjum og hagnaði af rekstrinum. Þetta er því ekki leigusamningur,“ sagði Friedman við Fréttablaðið síðastliðið vor.

Editon hótel eru ný keðja í eigu Marriott sem er stærsta hótelfyrirtæki heims með um sjö þúsund hótel. Edition er í dag að finna í tíu borgum og er ráðgert að opna fjögur hótel í viðbót í ár. Þar á meðal hótelið við Hörpu en sem fyrr segir gæti það dregist fram yfir áramót.