Ekki víst að Marriott Edition opni í ár

Stefnt er að því að taka hótelið við Hörpu í notkun undir lok þessa árs. Sú áætlun gæti breyst.

Hörpuhótelið, Marriott Edition, eins og það er kynnt á heimasíðu Carpenter & Company, eigenda byggingarinnar. SSKJÁMYND: CARPENTER & COMPANY

Á heim­síðu Marriott Edition segir að útibú hótelkeðj­unnar í Reykjavík opni í ár. Það er þó ekki víst að það gangi upp og vígslu þessa fimm stjörnu hótels yrði þá seinkað fram á fyrsta fjórðung næsta árs. Þetta kemur fram í svari fyrir­tæk­isins við fyrir­spurn Túrista.

Upphaf­lega stóð til að taka á móti fyrstu gest­unum á Edition hótelinu síðast­liðið vor. Fjár­mögnun bygg­ing­ar­innar tók hins vegar lengri tíma en ráð var fyrir gert og þar með seinkaði fram­kvæmdum. Kostn­að­ar­áætlun verk­efn­isins hljómaði í fyrstu upp á 16 millj­arða króna en ljóst er að verk­efnið verður mun dýrara sem skýrist meðal annars af styrk­ingu krón­unnar eins og kom fram í viðtali við forsvars­menn bygg­ing­ar­innar í Frétta­blaðinu síðast­liðið vor. „

Enginn í verk­efninu er aura­laus. Við verðum hins vegar að gaum­gæfa fjár­hags­hliðina og taka skyn­sam­legar ákvarð­anir en ég tel að verk­efnið standi fjár­hags­lega betur en þegar við fórum af stað með það. Það mun kosta meira og verða meira virði. Verð á hótel­her­bergjum í Reykjavík hefur hækkað meira en sem nemur kostnaði á tíma­bilinu,“ sagði Richard L. Friedman, forstjóri og aðaleig­andi, banda­ríska fast­eigna­þró­un­ar­fé­lagsins Carpenter & Company sem á stærstan hlutinn í bygg­ing­unni.

Fried­mann bætti því við að forsvars­menn bygg­ing­ar­innar myndu jafn­framt eiga hótelið sjálft. „Við lítum svo á að hótelið sé í okkar eigu en sé stýrt af Marr­iott samkvæmt samn­ingi næstu 30 árin. Hótelið greiðir okkur ekki fasta leigu heldur fær Marriott Edition hlut­fall af tekjum og hagnaði af rekstr­inum. Þetta er því ekki leigu­samn­ingur,“ sagði Friedman við Frétta­blaðið síðast­liðið vor.

Editon hótel eru ný keðja í eigu Marriott sem er stærsta hótel­fyr­ir­tæki heims með um sjö þúsund hótel. Edition er í dag að finna í tíu borgum og er ráðgert að opna fjögur hótel í viðbót í ár. Þar á meðal hótelið við Hörpu en sem fyrr segir gæti það dregist fram yfir áramót.