Endurskoða sumaráætlunina

Icelandair hefur tekið á leigu tvær Boeing 767 farþegaflugvélar og boðar breytingar á flugáætlun félagsins yfir aðalferðamannatímabilið.

icelandair 767 757
Boeing 767 og Boeing 757 þotur. Mynd: Icelandair

Breytingar í samkeppnisumhverfinu eru sagðar ástæður þess að stjórnendur Icelandair endurskoða nú sumaráætlun félagsins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu og dylst engum að þarna er vísað til brotthvarfs WOW air. Þessi helsti keppinautur Icelandair á íslenska markaðnum skilur eftir sig stórt skarð jafnvel þó WOW hafi verið búið að draga verulega úr umsvifum sínum frá síðasta sumri. Í tilkynningu Icelandair segir að félagið hafi möguleika á að auka framboð yfir háannatíma þegar kyrrsetningu Boeing MAX þota félagsins verður aflétt.

Núverandi sumaráætlun Icelandair byggir á því að félagið hafi níu Boeing MAX þotur til umráða en líkt og Túristi greindi frá í gær þá vinnur félagið að því að leigja flugvélar til að tryggja að flugáætlun Icelandair raskist sem minnst. Félagið staðfesti svo í dag að búið væri að leigja tvær Boeing 767 breiðþotur og unnið væri að því að leigja eina vél í viðbót fyrir sumarið. Samkvæmt upplýsingum frá Icelandair er ólíklegt að sú verði jafnframt breiðþota en flugvélarnar þrjár verða í rekstri hjá Icelandair út septembermánuð.

Í flugflota Icelandair eru fyrir fjórar breiðþotur og þær verða þá samtals sex í sumar. Í þessum flugvélum eru sæti fyrir 262 farþega en til samanburðar geta Boeing MAX 8 þoturnar flogið með 160 farþega og sætin í MAX 9 eru 176. Stærðarmunurinn er því töluverður og þar með gætu stjórnendur Icelandair valið að sameina brottfarir þó ekkert hafi verið gefið út um það. Á sama tíma gætu verið tækifæri í því fyrir Icelandair að auka framboð á flugsætum til evrópskra borga eins og Amsterdam, Frankfurt og Parísar enda var WOW stórtækt í flugi til þessara staða.

Sem fyrr segir þá er ennþá óvissa um hvenær MAX þotunum verður hleypt í loftið á ný en Icelandair hefur þegar fellt niður sumarflug til Cleveland og Halifax og var kyrrsetning nýju þotanna sögð ein af ástæðum þeirrar ákvörðunar.