Fjarstæði við Leifsstöð áfram í notkun

Þó umsvifin á Keflavíkurflugvelli dragist saman í sumar þá mun hluti farþega áfram þurfa að taka rútu frá flugvél og að flugstöð.

Á fallegum degi eru vafalítið margir farþegar sáttir við að þurfa komast beint undir beran himinn við komuna til landsins. Það á þó sennilega ekki við í hvassviðri, frosti eða rigningu. Mynd: Isavia

Þegar Icelandair og WOW air stækkuðu hvað hraðast þá var ekki lengur mögulegt að leggja öllum flugvélunum við Leifsstöð. Þoturnar stoppuðu þá út á plani og farþegarnir keyrðir í rútum yfir í Leifsstöð. Svona fyrirkomulag þekkist víða um heim en veðráttan hér á landi gerir farþegunum stundum erfitt fyrir þó leiðin undir berum himni sé stutt.

Í dag eru samtals tuttugu og sex aukastæði á Keflavíkurflugvelli og þó WOW air, næst umsvifamesta flugfélagið á flugvellinum, sé nú horfið þá verða þessi stæði áfram í notkun í sumar. „Það er gert ráð fyrir því að fjarstæði verði notuð eitthvað í minni mæli en áður, en þó er óljóst hversu mikið minna. Hafa ber í hug að ýmsir flugrekendur kjósa frekar að nota fjarstæði vegna rekstrarhagræðingar sem þau bjóða upp á, og gera núverandi áætlanir ráð fyrir að notkunin verði stöðug samt sem áður. Þá er líka rétt að nefna að það eru ákveðnir álagstímar yfir daginn þegar öll hlið eru í notkun og þá þarf að nota rútuhlið. Allt veltur þetta síðan á úthlutuðum afgreiðslutímum með tilliti til þess hvort um flug innan eða utan Schengen svæðis er að ræða. Þá er líka ávallt tekið mið af flæði farþega um Flugstöð Leifs Eiríkssonar og dreifingu á flugum milli hliða með tilliti til brottfarartíma,“ segir Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia.

Aðspurður um hvaða rekstrarhagræði er fólgið í því að nota fjarstæðin þá bendir Guðjón á að það taki styttri tíma að fá farþega um borð þegar þeir hafa val um að ganga inn að framan og að aftan. Á sama hátt sparast tími við að tæma flugvélarnar á ný.