Fjölga ferðunum til London

Stjórnendur Wizz Air hafa ákveðið að fljúga daglega hingað frá Luton flugvelli við London.

„Ein af ástæðum velgegni okkar er hversu hratt við getum brugðist við breytingum á markaðnum. Við fórum því í gang um leið og WOW air varð gjaldþrota,“ segir Andras Rado, blaðafulltrúi Wizz Air, varðandi þá ákvörðun félagsins að bjóða upp á daglegt flug hingað frá London frá og með sumrinu.

Þegar þetta ungverska lággjaldaflugfélag hóf Íslandsflug frá Luton við London í fyrra þá var gert ráð fyrir daglega brottföru yfir vetrarmánuðina. Fallið var frá þeim áformum þar sem eftirspurn reyndist ekki nægjanleg. Með brotthvarfi WOW air þá sjá stjórnendur Wizz Air hins vegar tækifæri í að fjölga ferðunum en sumaráætlun WOW gerði ráð fyrir daglegum ferðum til Stansted flugvallar við London.

Auk fleiri ferða milli London og Íslands þá mun Wizz Air bæta við enn einni flugleið sinni til Íslands í sumarlok þegar áætlunarflug hingað frá Kráka í Póllandi hefst. Þar með geta farþegar á Keflavíkurflugvelli valið úr ferðum með Wizz Air til 10 borga og þar af eru fimm í Póllandi.

Wizz Air er að stórum hlut í eigu Indigo Partners og stjórnarformaður félagsins er William Franke, sá hinn sami og skoðaði kaup á WOW air í vetur.