Fjórir af hverjum tíu komnir með nýtt flugfar

Umsvif WOW air voru mikil og víða um land eru ferðaþjónustufyrirtæki að finna fyrir áhrifum af gjaldþroti flugfélagsins með ýmsum hætti. Samantekt bílabókunarfyrirtækisins Northbound sýnir að meirihluti farþega WOW hefur afbókað. Ennþá á stór hluti eftir að ganga frá breytingum.

island anders jilden
Mynd: Anders Jilden / Unsplash

Af þeim hundruðum þúsunda farþega sem áttu pantað sæti með WOW air næstu vikur og mánuði þá má gera ráð fyrir að um þriðjungur þeirra hafi verið á leið hingað sem ferðamenn. Og þó langflestir þeirra geti fengið farmiðana endurgreidda þá er óhætt að fullyrða að hluti þessara ókomnu ferðamanna munu ekki skila sér til landsins með öðrum flugfélögum í vor og sumar. Hversu hátt hlutfallið verður er ekki hægt að segja til um en ný samantekt fyrirtækisins Northbound, sem rekur samnefnda bílabókunarvél, sýnir að hlutfallið gæti orðið nokkuð hátt. Hjá fyrirtækinu voru um tvö þúsund bílaleigubílar bókaðir og þegar vika var liðin frá gjaldþrotinu var búið að gera breytingar á um helmingi bókanna.

Meirihlutinn, eða um sex af hverjum tíu, afbókaði bílaleigubílinn á meðan hinir höfðu fundið sér annað far til landsins með öðru flugfélagi. Langflestir úr þeim hópi, eða um 63 prósent, ætla að koma með Icelandair en um sjötti hver var búinn að fær sig yfir til Wizz air og innan við tíundi hver ætlar að fljúga til landsins með easyJet í staðinn fyrir WOW. Hafa ber í huga að þeir sem afbókuðu bílaleigubílinn hjá Northbound gætu vissulega ennþá verið á leiðinni til Íslands en ákveðið að breyta ferðatilhöguninni umtalsvert.

Að sögn Ívars Rafn Þórarinssonar, eins af eigendum Northbound, þá stóðu farþegar WOW undir um fjórðungi af öllum bókunum hjá fyrirtækinu í fyrra. Meðalleigutíminn hjá farþegum WOW var þó styttri og leiguverðið lægra en hjá farþegum flestra annarra flugfélaga. Þetta sýnir greining Nortbound á öllum bílaleigubókunum frá og með síðustu mánaðamótum. Þar sést að farþegar SAS leigja að jafnaði bíla fyrir 137 þúsund krónur í 9 daga á meðan þeir sem koma hingað með Lufthansa, og leigja bíl í gegnum Northbound, dvelja í 11 daga og borga um 133 þúsund kr. fyrir bílinn. Farþegar Icelandair koma í þriðja sæti með 10 daga leigutíma og borga réttu um tíu þúsund krónum minna en farþegar Lufthansa.

Mynd: Northbound.is

Eins og gefur að skilja þá er gæti hlutfall afbókana hjá farþegum WOW air verið mjög mismunandi eftir því hversu langt er í ferðalagið og hvort ennþá er flogið beint til Íslands frá þeim flugvelli sem farþeginn hafði upphaflega ætlað að fljúga frá.