Fleiri ferðamenn en spár gerðu ráð fyrir

Fleiri útlendingar hafa sótt landið heim fyrstu mánuði ársins en spáð hafði verið.

Mest aukningin var í ferðafólki frá Kína, Ítalíu og Þýskalandi. Mynd: Guus Baggermans / Unsplash

Fyrstu þrjá mánuðina í fyrra flugu héðan nærri 481 þúsund erlendir ferðmenn en þeir voru rúmlega 458 þúsund að þessu sinni. Nemur samdrátturinn fimm af hundraði en ferðamannaspá Isavia, sem birt var í lok janúar, gerði ráð fyrir 12 prósent fækkun á þessum fyrsta ársfjórðungi. Í nýliðnum mars var spáð 17 prósent fækkun en hún varð aðeins 1,7 prósent samkvæmt talningu Ferðamálastofu sem birt var í gær.

Ferðafólki frá Bandaríkjunum og Bretlandi hefur fækkað langmest en þessar tvær þjóðir eru líka langfjölmennastar í hópi ferðamanna hér á landi. Fyrstu þrjár mánuði ársins var vægi breska og bandarískra ferðamanna 45 prósent þrátt fyrir fækkunina. Ferðafólki frá Póllandi og Eystrarsaltslöndunum þremur fækkaði líka þónokkuð. Kínverjum, Ítölum og Þjóðverjum fjölgaði hins vegar langmest þegar litið er til fjölda, en ekki hlutfallslegrar aukningar, eða um rúmlega tvö þúsund ferðamenn frá hverju landi fyrir sig.

Líklega má rekja stóran hluta af aukningunni frá Ítalíu til þeirrar staðreyndar að í vetur var í fyrsta skipti í boði beint flug hingað frá Róm. Það var Norwegian sem hélt því úti en síðasta ferðin var farin nú í lok mars þar sem norska félagið er að skera niður starfsemi sína í Róm.