Fleiri ferða­menn um borð

Tengifarþegum hjá Icelandair fækkaði í mars á kostnað farþega sem voru á leið hingað í ferðalag. Hlutfall íslenskra farþega jókst sömuleiðis.

Mynd: Icelandair hotels

Það voru 268 þúsund farþegar sem nýttu sér áætl­un­ar­flug Icelandair í nýliðnum mars eða um 8 þúsund fleiri en á sama tíma á síðasta ári. Þá hafði páskatraffíkin jákvæð áhrif á tölurnar að hálfu leyti því páska­dagur var þann 1. apríl. Þrátt fyrir fleiri farþega þá var nýtingin í vélum Icelandair ögn lakari. Skýr­ingin er sú að framboð á flug­sætum var aukið um sex prósent á meðan farþega­hóp­urinn stækkaði um þrjú prósent samkvæmt nýbirtum flutn­inga­tölum Icelandair fyrir mars.

Í þessum mánað­ar­legu uppgjörum Icelandair er fjöldi farþega vana­lega birtur í einni tölu en að þessu sinni hafa stjórn­endur Icelandair ákveðið að sýna hvernig farþeg­arnir skiptust á milli ferða­manna á leið til Íslands, tengifar­þega og svo farþega sem hófu ferða­lagið hér á landi. Niður­staðan er sú að fyrst­nefndi hópurinn er stærstur (121 þúsund farþegar) og stækkaði hann um 13 af hundraði frá sama tíma í fyrra. Tengifar­þeg­arnir voru um 105 þúsund og fækkaði þeim um 7 prósent. Vægi farþega frá heima­mark­aðnum er hins vegar minnst því þeir voru rétt um 42 þúsund talsins en fjölgaði þó um fjögur prósent.

Ástæða þess að forsvars­fólk Icelandair birtir að þessu sinni dýpri grein­ingu á farþega­hópnum kann að hafa með fall WOW air að gera. Fyrir íslenska ferða­þjón­ustu og íslenskt efna­hagslíf skiptir nefni­lega miklu máli að vægi erlendra ferða­manna í þotum Icelandair aukist á kostnað tengifar­þeg­anna sem staldra aðeins stutta stund í Leifs­stöð á milli ferða sinni milli Evrópu og Norður-Ameríku.